"nennir þú að koma með mér að skoða rassa"

Í lok matarboðs þar sem ég bauð Vilmu í mat til mömmu (já aftur) þá kastaði hún þessari spurningu fram eins og ekkert væri.  
Þessi setning bergmálaði í hausnum á mér í dágóðan tíma ... hvað var hún að fara 

Vorum við að fara á handboltaleik að skoða strákarassa?
Vorum við að fara á kaffihús að horfa á menn, konur og börn rölta framhjá okkur?
Vorum við að fara á nærfatasýningu
Vorum við að fara og hanna stuttbuxur fyrir landsliðið
Vorum við að fara og gera hvað... hvað .... hvað .... eitthvað spennandi virtist það vera

En nei ... við fórum að skoða 5 yndislega fallega kettlinga til að athuga kyn þeirra fyrir vinnufélaga hennar

Spái betur í málið næst þegar hún hendir svona spurningu fram fyrir mig Joyful


maður á að hlusta á viðmælandann sinn ...

Eftir vinnu í gær fór ég í matarboð sem væri ekki frásögu færandi nema að þar sem ég hafði átt heldur óþægilegan dag þá kannski tók ég aðeins of vel á tequilanu sem endalaust var hellt í staupið mitt og ég endaði með að fara ein í miðbæinn í agalega skemmtilegu stuði og brilleraði gjörsamlega.

Ég var agalega fegin þegar niður í bæ var komið að þar labbaði á móti mér vinnufélagi sem ég síðan eyddi mest öllu kvöldinu með og lærði eftir það að athyglissjúkur strákur er ekki endilega rétta málið í strákaskoðun.

Við byrjuðum á barnum þar sem við fengum þjónustu strax, en úr varð smá vesen milli hans og þess sem stóð við hliðina á honum því það þola jú ekki allir svona athyglissjúka einstaklinga.
Á barnum fann ég svo agalega sætan Kanadabúa sem var hér á einhverri ráðstefnu sem ég nennti hreinlega ekki að heyra talað um og dró hann því á dansgólfið en þá stal vinnufélaginn mér frá dansherranum. 
Aðeins seinna var ég búin að ná góðu augnkontakti við svakalega fallegan strák nema þá kom vinnufélaginn og hlammaði sér upp á borðið hjá mér og reif upp bolinn sinn til að sýna sig og þessi fallegi bakkaði út og lagði ekki í meira.
Það kom þó að því þegar hann svo lenti í smá veseni og var hent út af skemmtistaðnum að þetta borgaði sig.  
Þetta er nefninlega fínasta leið til að koma sér í að spjalla við sætu dyraverðina Tounge

Ég ákvað að taka einn dyravörðinn á eintöl þar sem hann er svo svakalega flottur í rassvasa gallabuxunum sínum sem ég varð náttúrulega að tjá honum og eins þurfti ég að segja honum að það væri allt í lagi að brosa af og til þó hann væri í vinnunni.  
Í hvert sinn (já já þetta voru nokkrar ferðir til hans) sem ég fór til hans þá spurði ég hann að nafni en það eina sem ég veit fyrir víst er að hann heitir hvorki Stjáni né Kiddi en get ekki fyrir mitt litla líf munað nafnið hans ....


flott tilraun

Jæja , ég var búin að lofa því að taka mig á í stefnumótamálum svo ég opnaði aldeilis fyrir allar leiðir til að hitta á menn sem hægt væri að fara með á stefnumót og vitið þið bara hvað ..... stefnumót var ákveðið í kvöld.

Já konan er ekki lengi að því sem lítið er enda svosem ekkert agalega feimin (þegar ókunnugir menn eru annarsvegar) svo þetta var tiltölulega auðfengið að redda einu deiti.

Ég verð þó að játa að þetta var frumlegasta stefnumót sem ég hef átt þar sem við vorum á sitthvorum staðnum því ég bara steinsvaf í sófanum mínum Blush
Ég er búin að rembast við að snúa sólahringnum við alla vikuna en gengið ílla og núna bara hafði þreytan yfirhöndina og þegar ég settist í sófann minn til að bíða efir að kvöldaði þá bara datt ég útaf.
Nú er spurning hvort ég nái einhverju sambandi við guttann aftur eða hvort hann hafi orðið ógurlega sár .....


"bara flott"

" Hæ hvað segir þú gott? "

Svona sakleysislega byrjaði það sem verður að teljast spennandi sms-sendingar sem gengu í dágóðan tíma á laugardagskvöldið.
Þessi texti kom úr ókunnugu símanúmeri og ég ákvað að tékka aðeins á málunum svo ég svaraði og spurði viðkomandi hvort hann/hún þekkti mig eitthvað.

Eftir nokkuð mörg sms komst ég að því að þetta var einhleypur karlmaður sem þóttist viss um að hafa hitt mig á einhverjum ónefndum skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur fyrst hann átti símanúmerið mitt og hann hafði horft á það í nokkuð langan tíma en aldrei lagt í að tékka hver eigandinn væri þar sem eina sem stóð við númerið var "bara flott"

Ég verð að viðurkenna að þessi sæti strákur hefur flækst helling fyrir mér upp á síðkastið og reyndar fyrir meira en ári síðan þá hittumst við nokkrum sinnum.   Í sumar urðum við svo fræg að hittast í bíó 3svar í sömu vikunni líka auk þess að fara á sömu tónleikana Blush  var samt ekki að sitja fyrir honum.

Annars er það að frétta að núna ætla ég að taka mig á í stefnumótunum og sjá hvort þau verði ekki áfram jafn klaufaleg og forðum svo ég geti nú loksins sagt ykkur frá einhverju spennandi Tounge


Gleðilegt árið öll sömul ...

"Vá, er þetta alltaf svona á áramótum á Íslandi" spurðu pólsku konurnar tvær þar sem þær stóðu agndofa með mér og nokkrum pólskum vinnufélögum upp við Kópavogskirkju á miðnætti gamlársdags.

Ég "fórnaði" skaupinu þetta árið (enda væntanlega verið kreppuskaup) og fór í staðin í áramótapartý hjá pólskum vinnufélögum mínum.
Þegar ég kom til þeirra þá var bein útsending frá Varsjá í sjónvarpinu þar sem verið var að telja niður í áramótin þarna úti.
Þarna voru 40þús manns samankomin á torgi þar sem skemmtidagskrá fór fram með helstu listamönnum borgarinnar og mikil og stór skemmtun sem virkaði vel sem undirspil fyrir dansinn hjá okkur.  
10sek í miðnætti stilltum við okkur upp fyrir framan sjónvarpið og töldum niður á pólskunni (já ég líka) og skáluðum svo í kampavín að því loknu.  ´
Skemmtunin hélt áfram í sjónvarpinu og nú var sýnt frá flugeldasýningu sem var voðalega flott en ekkert á við glæsileika Reykjavíkur á miðnætti gamlársdags ár hvert.

Það er alltaf gaman að sjá hluti sem maður er vanur í gegnum augu aðkomumanna og þetta var engin undantekning.   Langt síðan ég hef notið flugeldanna svona vel og svo var skroppið í bæinn að dansað aðeins á skemmtistöðum borgarinnar en við svo "gömul" að við erum bara komin snemma heim enda stíf dagskrá þar sem eiginkonurnar eru í stuttri heimsókn og hellingur sem á að gera...

 


aldrei of seint að verða skotin ...

Gleðilega hátíðina elsku vinir og þið hin

Ég er aldeilis búin að hafa það gott um hátíðirnar og eins og ávalt bara búin að hafa nóg að gera, fjölskylduboð á daginn og svo heimsóknir til vina á kvöldin og fram á nætur.
Stjúpan mín var hjá mér í gær og við kíktum á Vilmu vinkonu að reyna að hjálpa henni með allt nammið sitt .... og það verður að játast að ég stóð mig mun betur í gær en í fyrrakvöld Grin   Það vantar ekki fjörið á heimilið frekar en vanalega, en óvenju krúttlegt að sitja núna og láta 9 litla kettlinga slást um að veiða tásurnar á manni undir borði og sjá þau slást við hvort annað.  Einnig toppaði ég sjálfa mig í gáfum þegar ég óvart gleymdi ofnæmislyfjunum mínum hjá henni í fyrrakvöld og í gær bara fann ég stað til að geyma þau á .... aldrei að vita hvenær maður sést þarna næst.

En í dag gerðist ég boðflenna í brúðkaupi og fannst bara yndislegt að sjá "gamla" frændann minn spariklæddan og nú eiginkonu hans í sínu fínasta vera að játast hvort öðru.
Slegið var svo til veislu þar sem kræsingar voru á borðum og ég naut þess að fylgjast aðeins með þeim brúðhjónum þar sem þau eru töluvert eldri en ég eða 14 og 18 árum eldri.
Það skein af þeim hamingjan og greinilegt að þau voru ástfangin og gott ef það fór ekki eitthvað fyrir barnaskólaskoti líka þar sem verið var að kítla og knúsast og létt grín gert að öllu í fari hvors annars.

Stelpur, þetta segir mér að ég ætla ekki að örvænta fyrr en eftir ein 13-14 ár í viðbót ein ... ef ég lifi svo lengi. 
Skreppum nú bara út að skemmta okkur í kvöld án þess að spá í karlmenn ..... Tounge


er á lífi þó bloggið sýni það ekki

Halló þið ótrúlega þolinmóðu einstaklingar sem kíkið enn hérna inn til að sjá hvort eitthvað sé í fréttum.

Ég er á lífi en hef bara haft of mikið að gera við að njóta lífsins til að hafa tíma til að blogga.

Fréttnæmast er þó sennilega það að ég er heima hjá mér á laugardagskvöldi og var heima hjá mér í gær á föstudagskvöldi svo núna eru helgarnar orðnar 3 á árinu sem bæði kvöldin hafa verið óbókuð.
Þetta verður að teljast óvanalegt (að ég sé heima) og vitið þið bara hvað ..... ég kann ekki lengur að eiga rólegt kvöld heima hjá mér.  
Dagurinn í dag var þó bókaður í heimsókn og svo afmæli og morgundagurinn stífur þar sem bíður vinna, jólaball og matarboð.

Á föstudag þegar ég var að fara yfir plan helgarinnar með einum vinnufélaga þá spurði hann voðalega einlæglega hvernig það væri að vera svona vinsæl og held að einlæga svarið mitt hafi slegið hann aðeins út af laginu .... svarið var "lýjandi"   
Hann var að skoða dagatalið mitt og sá sem satt er að flest kvöld mánaðarins er búið að merkja við eitthvað skemmtilegt og sennilega er það ástæða þess að ég skil ekki hvernig árið 2008 getur verið að kveðja eftir aðeins rúmar 2 vikur.´
Ekkert er búið að plana ennþá með áramótin en ég allavega mun kveðja ótrúlega skemmtilegt ár þar sem hver mínúta virðist hafa verið skipulögð en skilur einnig eftir ótrúlega miklar og fjölbreyttar minningar sem ég mun ylja mér við um ókomna framtíð.

Farið varlega í jólaösinni og njótið hátíðanna ef ég ekki sést hér meir fyrir þær Kissing


alveg græn fyrir lífinu stundum ...

Ég fékk einu sinni enn staðfestingu á hvað ég er saklaus kona (að sumu leiti)

Ég á ungann vin sem ég alveg elska út af lífinu og hef jafnvel stundum litið á hann sem litla bróðir sem ég annars á ekki.  Þetta er yndislegur strákur með svo fallegan hug og hjarta að það er leitun að öðru eins.

Þessi strákur missti fyrir stuttu góðan vin sinn löngu fyrir aldur fram og þá breyttist vinskapur okkar töluvert þar sem hann náði að ræða svo vel við mig um vin sinn og hvað þetta var erfiður tími í lífinu.   
Það er sennilega vegna þessarar stundar sem hann ákvað þegar ég hitti hann á djamminu fyrir nokkrum vikum að trúa mér fyrir því að hann væri ekki bara að drekka áfengi á skemmtistöðunum heldur væri hann að taka í nösina og væri langt kominn með að setja sig á hausinn með eiturlyfjakaupum.
Hann sagði mér líka að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem ég hitti hann undir áhrifum, ég væri bara svo græn að átta mig ekki á því.

Mín viðbrögð voru ekki alveg þau heilsteyptustu þar sem ég varð voðalega reið út í hann og meira að segja lamdi hann og bað hann vinsamlegast að láta sig hverfa úr lífi mínu því með svona vini hefði ég ekkert að gera.
Hann sem betur fer tók mig ekki alveg á orðinu og hafði samband í vikunni eftir þetta og bað mig um að tala við sig og nú höfum við rætt aðeins þetta vandamál hans og ég veit svosem að þetta er hans vandamál en ekki mitt, en fyrir svona meðvirka konu eins og mig þá var þetta skelfilegt sjokk.
Hef misst allt traust sem ég bar til hans þar sem ég er búin að sjá lygavef sem hann var búinn að spinna sem var mér hulinn áður þar sem ég bara sá það góða í honum ... en vona að það lagist allt síðar.

"Brósi" .... stattu þig í lífinu .... ég elska þig


stutta Eyjaferðin ...

Áttu það nokkuð til að verða sjóveik?

Þessi saklausa spurning kom framan úr jeppanum þar sem 2 vinnufélagar voru staddir, annar að drekka með mér bjór meðan hinn keyrði eins hratt og hann löglega gat frá Bakka að Þorlákshöfn eitt föstudagskvöldið.

Við vorum 3 á leiðinni til Vestmannaeyja að mæta sem leynigestir í kveðjupartý til vinnufélaga okkar.
Aðrir vinnufélagar höfðu skipulagt þetta og þetta átti ekki að vera neitt mál, bara fljúga yfir á föstudeginum og með flugi heim daginn eftir. 

Þegar kl er að nálgast 17 æðum við af stað með tannburstana í rassvösunum og keyrðum austur með látum ... þegar á Bakka var komið var okkur tjáð að ekkert hefði verið flogið allan daginn og fluginu úr Reykjavík hefði verið snúið við.    Við fórum þá í rólegheitum af stað aftur í bæinn og ákváðum að allavega ættum við hrós skilið fyrir að hafa reynt.

Auðvitað hringdum við svo til að segja félögunum í Eyjum að þetta sé búið spil en fáum þá þær "gleðifréttir" að þar sem St.Ola sem var að leysa Herjólf af hafði fengið brotsjó á sig kvöldinu áður þá væri hann á eftir áætlun og væri væntanlegur í Þorlákshöfn eftir hálftíma að pikka upp fleiri farþega.

Auðvitað fékk hin sjóveika ég engu ráðið og var ætt af stað í Þorlákshöfn, keyptir miðar og hlaupið um borð en þegar þangað kom fór reyndar liturinn í andlitinu á mér að hverfa og eins hjá öðrum ferðafélaganum svo við lögðum okkur í sjónvarpssalnum og sváfum af okkur sjóferðina.

7 og hálfum tíma eftir að við fórum úr vinnunni mættum við loks til Eyja og á móti okkur tóku makar vinnufélaganna og fóru með okkur í þetta líka yndislega samkvæmi þar sem við skemmtum okkur fram á nótt og svo var farið með mig á pöbbinn til að kíkja á strákana og áður en ég vissi af var ég orðin ein eftir á ballinu og hafði ekki hugmynd hvar næturgistingin mín var enda ekki komið út í eyjar í 20 ár.

Klukkan að verða 5 ákvað ég að rölta mér út í annan leigubílinn sem beið fyrir utan skemmtistaðinn og bað hann vinsamlegast um að keyra mig heim til ákveðins vinnufélaga og þakkaði guði fyrir að vera í svona litlu bæjarfélagi því það dugði þó ég þyrfti aðeins að segja honum nánari deili á hver af bræðrunum það væri.
En þegar þangað kom þá var hann búinn að hita samlokur handa þeim hjónunum og mér líka svo við fengum okkur snæðing og spjölluðum svo fram eftir morgni.
Klukkan 7 var ákveðið að kíkja í rúmin og láta gott heita þetta kvöldið og þegar ég var rétt sofnuð þá hringdu hinir ferðalangarnir því klukkan var orðin 10 og við áttum að mæta í flug eftir hálftíma.

Við tókum örsnögga vettvangsferð um Eyjar þar sem ég náði að sjá hvar fyrirtækið er með aðstöðu og hvar stjúpan mín átti heima fyrstu árin sín og svo var ætt út á flugvöll og þegar við fórum í loftið þá voru liðnir rétt 10 tímar síðan ég hafði komið og mikið agalega þarf ég að fara til Eyja aftur til að ná þar fleiri klukkustundum og hitta á kunningja mína sem búa þar en eru ekki tengdir vinnunni.

TAKK FYRIR MIG VINNUFÉLAGAR svona ef þið óvart eruð að skoða bloggin því þið vitið ekki af mér.


Kocham Cię całymi myślami

Það hefur svosem heyrst hérna að ég hef verið dugleg að blanda geði við pólsku vinnufélagana mína enda með eindæmum yndislegur hópur (jahh allavega hluti af þeim)

Núna á árshátíð fyrirtækisins gerði ég gott betur og fór upp á svið að syngja fyrir þá .. þekkt lag ... á pólsku.

Kocham Cię heitir lagið og ég ætla að leyfa ykkur að heyra hérna í færslunni .. hefðuð bara átt að sjá hvað ég stóð mig vel svona þegar ég jafnaði mig á næstum yfirliðinu vegna stressins sem skyndilega kom yfir mig

Vann mér inn fullt af prikum og bara verð að loksins sýna eitthvað í mig með því að birta eina mynd úr gleðinni sem sýnir mig og nokkra af strákunum mínum sem komu upp á svið að knúsa mig í miðju lagi ...

100_1004

      


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband