of gömul fyrir svona vinnutörn ...

Kom heim rúmlega 11 í gærkvöldi, kveikti á tölvunni og horfði aðgerðarlaus á skjáinn í ca 10 mínútur, slökkti svo á tölvunni og fór upp í rúm með ipodinn með mér og setti uppháhalds tónlistina mína á og sofnaði út frá minningum um Spán, hita, sól og góða tíma.
Í morgun vaknaði ég svo bara þreytt svo ég ætla að eiga bara rólegan dag fram að fermingaveislu þar sem tekið verður á í spjallinu, hlátrinum og átinu.

Eftir veikindi síðustu helgar þá hefur krafturinn svosem ekkert verið að flæða um líkamann, en auðvitað tekur maður lífið með trompi og gengur frá því sem þarf að ganga frá.
Vinnudagarnir voru þó helst til langir, en það var gert til að sleppa við að þurfa að mæta um helgina.
Þriðjudagur rétt rúmir 8 tímar, ekkert tiltökumál.
Miðvikudagur 12 tímar
Fimmtudagur 13 tímar
Föstudagur 15 tímar
En dugði þó ekki alveg til held ég því ég treysti ekki alveg athyglisgáfunum í gærkvöldi þegar launin voru yfirfarin svo ég kíki inn eitthvað um helgina og rétt renni yfir þessa 220 launaseðla aftur.

Veit að margir vinir mínir vinna meira en þetta allar vikur, en vitið þið bara hvað ..... ég réð mig í 40 tíma vinnuviku og kann hugmyndinni um hana bara vel ....


smá að stelast í vinnutímanum ...

Sit sveitt hér í vinnunni núna, er að prenta út vinnuskýrslur og leyfi mér að svindla um leið og senda smá skilaboð hér í gegn.

Var í snilldar kjaftaklúbb í gær og hún Hibba Bibba mín var þvílíkt með veitingarnar. 
Hvað það kallast þegar konur eru farnar að smakka það bara alla miðvikudaga?  Spyr því fyrir viku síðan fékk ég mér í aðra tánna með vinnufélögum og núna bauð Hibba mín upp hvítvín með Kjúklingapastanu sem ég þáði og svo súkkulaðibombu á eftir.
Það vantaði aðeins í hópinn en umræðurnar voru fjörugar og spönnuðu ótrúlegustu málefni. gengið, íbúðarlánin, kyn barns sem var þarna í móðurkvið, jarðafarir, strákastand og fermingarveislur sem búið er að bjóða okkur í.

Jæja, verð víst að halda áfram svo hér verði borguð út laun eftir helgi .... yrði annars ekki vinsæl Shocking


er eitthvað í loftinu ...

... sjaldan verið eins mikið að gera í daðrinu við strákana.

Held að það hljóti bara að vera eitthvað í loftinu því allir strákarnir sem ég hef daðrað við síðasta mánuðinn eða svo eru núna voðalega spenntir og vill svo til að það eru 3 sem bera af og eru inni í myndinni eins og er.

Einn er útlenskur og vantar aðeins upp á tjáninguna að gera þegar við reynum að spjalla svo það er svolítið takmarkað hvað ég ætla að nenna að reyna að spjalla meira við hann.

Einn er svo óheyrilega eitthvað almennilegur og sætur í sér að ég held bara að mér eigi ekki eftir að líka við hann (sjálfsbjargarviðleitni hjá mér svo ég verði ekki skotin eða hvað ætli þetta sé).

Svo kom einn svona "blast from the past" inn í líf mitt á ný fyrir nokkrum dögum og er ekki að kæta vinkonurnar þar sem hann situr efst á blaði hjá mér en á það ekki skilið.
Af hverju hrífst maður alltaf mest af þeim sem eiga það síst skilið?

Allavega, þá þykir vinkonunum svo mikið um þetta koma að þær hafa pantað námskeið hjá mér í daðri og þrátt fyrir takmarkaða kennsluhæfileika (annaðhvort er fólk með daður í blóðinu eður ei) þá ætla ég sko að halda fyrir þær námskeið en einna helst því svo ætlast þær til að ég haldi lokapróf í miðbæ Reykjavíkur og ég bara get ekki annað en samþykkt þetta svo ég geti skemmt mér yfir tilþrifunum þegar ég vel út handa þeim "fórnarlömb"

Hvað maður er nú ílla innrættur stundum, en skráning er hafin stelpur .......


Kirkjuklukkur og skólabjöllur = enginn svefnfriður

Alla páskahelgina er ég búin að vakna fyrr en ég hafði áætlað. 
Stundum vegna heilsunnar, stundum vegna kirkjuklukknanna og svo hina dagana eins og í morgun vegna bjöllunnar í skólanum að hringja inn úr frímínútum 
Merkilegt að það sé ekki hægt að slökkva á þessari yndislegu bjöllu svona þegar frí er í skólanum.

Í morgun hvarflaði reyndar hugurinn aftur til Austurbæjarskólans míns og Indriða dyravarðar.
Við vorum miklir félagar og þar sem ég bjó í vesturbænum og var alltaf keyrð í skólann fyrir allar aldir þá fékk ég að fara inn með Indriða og ýmist bara sitja í makindum mínum frammi á gangi að lesa eða fara með honum og kveikja ljósin og gera tilbúið fyrir daginn.
Það var alltaf gaman að flakka með Indriða um skólann og merkilegt hvað draugagangurinn var enginn þegar hann var nálægur.  
En svo samhengið náist þá nefnilega bilaði bjalla Austurbæjarskólans mjög reglulega þegar ég var þar nemandi og fékk ég á stundum heiðurinn af því að fara út með stóra bjöllu og hrista hana af öllum mætti svo það heyrðist í henni út um alla lóð skólans.

Verð að fara að nýta mér að þekkja starfsmann í skólanum í dag og kíkja til hennar í heimsókn og sjá hvort ég fái ekki túr um húsið, skoða gömlu aðstöðuna okkar, salinn, eldhúsið, sundlaugina og ekki síst háaloftið og sjá hvort það búi nokkuð þar lengur.   Svo má ekki gleyma að skoða myndirnar af allri fjölskyldunni minni hangandi upp á veggjum, ef þær eru þar enn bekkjamyndirnar gömlu.

Svo er bara skondið hvað heimurinn er lítill því fyrir rétt rúmu ári síðan þá fór ég á nokkur stefnumót með afabarninu hans Indriða .... sá held ég að hafi hlegið dátt að ofan.


gott kvöld að baki..

Vá Vilma, ég var ekki einu sinni komin heim áður en þú varst búin að birta frásögu af kvöldinu okkar !! http://vilma.blog.is/blog/vilma/entry/482302/

Þakka ykkur ljónunum fyrir gott kvöld, unglingnum og heimasætunni reyndar líka Kissing
Ekki spurning að unglingurinn ætti að bjóða okkur í afmælispartýið vilji hún "gott geim" enda við ekkert smá fær um að skemmta okkur og örugglega einhverjum fleirum í leiðinni.

Vona að næst verði kvöldið jafn fræðandi fyrir mig og þetta varð fyrir ykkur.
Þurfum svo að hittast 3 kellurnar, fyrirgefðu, stelpurnar með dagbækurnar til að ná að skipuleggja speglaföndrið, grillpartýið, hrútageimið, tónleikaferðirnar, utanlandsferðina og hvað eina sem annað var ákveðið að gera á næstu vikum.

Gangi þér vel að finna eggið þitt í fyrramálið .....


Já maður lætur flensuna ekki stoppa sig í öllu páskaplaninu...

Í kvöld ætla ég að hitta Snjóku, Vilmu og Gunnsa, taka fram eitthvert spilið og við etja kappi gegn hvort öðru.

Vilma þykist hafa unnið pókerinn sem henni var boðið í í gær eingöngu þar sem hún sé svo seinheppin í ástum, en núna verður málið flóknara þar sem við 4 erum öll einhleyp og búin að vera í mislangan tíma.

Búið er þó að dæma mig sem þá sem tapi þar sem ég sé búin að vera styst ein og ótrúlegt en satt sú sem hefur hvað mest að gera í strákunum (eða í Gunnsa tilfelli er það nú meira ósk um stelpuvesen).    
Það hefur nú ekki farið mikið fyrir því að ég sé að flækjast í strákunum, en þó dúkkaði einn fyrrum vinur upp fyrir nokkru og vildi endurnýja vinskapinn en ég reyndar er ekki alveg að kaupa það að fá hann aftur inn í líf mitt, en þetta hefur samt kveikt á einhverju því núna um páskana átti ég að eiga stefnumót við enn einn manninn af 66 árgerðinni.
Flensan hefur reyndar komið í veg fyrir að ég fari og hitti hann, en hann er þó búinn að vera voðalega sætur að hringja reglulega og sjá hvort mér sé ekki að batna svo ég er eiginlega að verða búin að dæma hann of næs strák til að vera í lagi.

En vona að þið eigið öll gott laugardagskvöld og munið að senda mér baráttukveðjur í spilin. 
Ætla svo að vakna á morgun og brjóta eggið mitt svo ég sjá málsháttinn minn loksins .....


mér var nær að ætla að slappa af ...

... loksins þegar ég fór bara snemma heim úr vinnunni 3 daga í röð og ætlaði ekkert að vinna um helgina þá náði þessi blessaða pest að bíta í mig og bitið virðist bara ætla að vera fast.

Sit hérna heima hálf meðvitundarlaus með enga rödd svo ég get ekki einu sinni hringt og vælt í þeim fjölda vina og vandamanna sem eru búnir með þennan pakka.   Byrjaði meira að segja með uppköstum og tók þannig sólahring fyrst, núna hiti, beinverkir og kvef (tek þetta sko með trompi).

Skal þó vera búin að jafna mig bara á eftir því mín bíður heimsókn í kvöld, spilakvöld með vinum annað kvöld,  salsa æfing á morgun, matarboð á páskadag og ekki vil ég þurfa að missa af þessu öllu á afslöppunarhelginni minni.

Farin að halla mér aftur, vona að þið eigið betri páskahelgi en ég Undecided


Hlakka bara til ...

Alveg merkilegt hvað vinir mínir og samstarfsfélagar hafa lélegan tónlistarsmekk því þau fussa bara yfir þessum fréttum.

Getur verið að það sé vegna þess að "You're beautiful" var ofspilað á öllum útvarpsstöðvunum og fólk hafi ekki gefið hinum lögunum hans séns?

Ég allavega búin að hlusta mikið á báða diskana hans og ekki spurning að ég mæti.


mbl.is James Blunt með tónleika 12. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"gömlu" ástföngnu vinnufélagarnir mínir ...

hægri, saman, hægri, vinstri, snú - vinstri, saman, vinstri, hægri snú og svo skipti spor .....

... hvað ég fór þessi spor oft í gærkvöldi án dansherra er mér ómögulegt að muna. 

Seinni hluti dansnámskeiðsins í vinnunni var í gær og aftur vorum við gallharðasta fólkið mætt á svæðið.  
Ríflega 50% afföll höfðu orðið af fólki frá síðasta tíma, en við túlkuðum það bara sem skræfu hátt í þeim sem hefðu ekki mætt, þeir þyrðu bara ekki í meira hopp og skopp.

Í þetta skiptið vantaði tilfinningalega dansherra svo annar danskennarinn hljóp í skarðið og var að dansa við okkur dömurnar.   
Það var svosem ekki verra því það er alltaf gaman að dansa við þá sem eitthvað kunna, en merkilega oft samt sem maður fór hring eftir hring án dansherra því hann þurfti náttúrulega að sinna því að kenna og þegar hann sá einhverja sem náðu ekki sporunum þá rauk hann á þá og skildi okkur stelpurnar einar eftir.
Eins lenti ég voðalega oft á einum dansherra sem hafði ekki verið í tímanum á undan og þá stal kvenkyns danskennarinn honum oft frá mér til að ná að koma taktinum í hann.

Ég tók mér reyndar svo eina pásu og settist út í sal og horfði á mannskapinn, það vildi reyndar svo skemmtilega til að þá voru pörin rétt samsett (makarnir saman og þessir stöku með lánsherrunum).
Öll pörin eru á þeim aldri að geta verið foreldrar mínir og það var bara yndislegt að sjá hvað þau voru öll ástfangin.   Þetta virkilega yljaði manni um hjartarætur, en að var þó stutt gamanið því danskennarinn sá mig og dreif mig út á gólf á ný....


minningar um fermingarbarn dagsins ...

Er að fara í fermingaveislu á eftir til dóttur vinkonu minnar.  
Helga hefur alltaf verið einstök stelpa og einhvernvegin finnst manni alltaf ógurlega vænt um hana (ekki að mér þyki ekki vænt um öll börn vina minna, hún bara á sinn sér stað í hjarta mér).

Þegar ég kynnist mömmu hennar þá er hún bara lítil dama með bleyju sem vildi ekkert við mig tala, en það breyttist svo með mánuðunum.  
Þegar hún varð aðeins eldri þá sátum við saman að lita og púsla og læra hvað litirnir hétu og eins um tölurnar en þá var alveg sama hvað ég gerði hún vildi bara vera nálægt mér og það situr svo fast í hausnum á mér í dag sú minning að í hvert sinn sem ég fór inn á salernið (og lokaði auðvitað dyrunum) þá sat hún fyrir framan dyrnar og grét þangað til ég opnaði aftur.   Það var ekkert mál hvar í íbúðinni ég annars var þá var hún róleg, enda kannski þá ýmist heyrt í mér blaðrandi eða séð mig.

Eins situr í kollinum á mér núna hvað hún var hamingjusöm þegar ég eitt árið kom með bleikt naglalakk handa henni í afmælisgjöf og því var pakkað inn með bleikri rós og allar hinar gjafirnar fölnuðu bara.   Þarna hafði ég fengið fregnir af naglalakksáhuganum í gegnum mömmu hennar og vann mér inn fullt af cool stigum hjá dömunni.

Helga mín, vona að þú eigir eftir að eiga yndislegan dag í dag og Anna Stína mín hvernig geta börnin þín verið orðin svona gömul????


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband