"sofðu í hausinn á þér og dreifðu þér, kexruglaði pottarinn þinn"

Sökum þess að Sálartónleikarnir eru í kvöld þá bara hef ég ekki hætt að syngja um hana Heitu Vilmu (HEY KANÍNA) eins og strákarnir okkar í beibunum sex gerðu alltaf hér í denn.

Fyrir öllum þessum árum síðan þá áttum við 6 vinir frábæra helgi í útilegu um verslunarmannahelgi þar sem þessi síðar fræga en óneitanlega ruglaða setning varð til "sofðu í hausinn á þér og dreifðu þér, kexruglaði pottarinn þinn"   Þetta varð einkennissetning þessa litla hóps og í kvöld ætla ég að syngja hástöfum með Sálini þegar hún tekur Hey Kanína og vona að Vilma, Lóa rauða, Inga ljósa, Beggi og Ásgeir heyri í mér .......


Ó ljúfa líf

Nú er ljúft að vera til ...

Yfirmennirnir í vinnunni eru staddir erlendis og það mátti sjá á vinnu minni í gær og í dag Cool

Við erum búin að vera á fullu í að reyna að klára áramótauppgjör fyrirtækisins og þess vegna er búið að vinna áfram síðustu vikurnar og eins unnið um helgar en eftir hádegi í gær fór fjármálastjórinn í frí og ég fór heim bara um kvöldmat og í dag gerði ég enn betur og fór heim kl 15 (eða réttara satt skrapp í nudd aftur og nýbúin)

En þó það sé búið að vera vitlaust að gera í vinnunni þá höfum við svosem ekki bara verið að vinna.
Við skruppum náttúrulega í keiluna síðustu helgi og skemmtum okkur rosalega vel, en á mánudagskvöldið bauð fyrirtækið okkur á smá dansnámskeið í matsalnum okkar og var ég fyrst á svæðið (en ekki hvað).

Við vorum um 20 manns mætt á svæðið þegar kennararnir komu, en auðvitað voru aðeins fleiri kvenmenn en karlmenn en sem betur fer höfðu þau tékkað á mætingunni svo þau mættu bara með auka menn með sér (flott þjónusta það).
Við lærðum polka, smá vals, swing og svo línudans og höfum örugglega aldrei svitnað svona mikið saman vinnufélagarnir, né hlegið svona mikið, en það vantaði eitthvað aðeins upp á hæfileikana hjá okkur og tilþrifin urðu því yndisleg.
Rúmir 2 tímar í hamagang með bara 3 litlum pásum.

Á morgun er svo mæting á tónleika eftir vinnu og svo er stefnan tekin á að mæta í vinnuna í smá tíma á laugardag og svo er ferming á sunnudag. 
Eftir það er bara komin næsta vinnuvika og seinna kvöldið á dansnámskeiðinu okkar, en vikan er sem betur fer stutt svo koma langþráðir páskar þar sem ætlunin er að gera sem minnst.


læknismáttur einlægninnar ....

Vaknaði í morgun hálf slöpp eitthvað andlega og búin að vera svona í allan dag en var bara ekki að skilja hvað var að angra mig.

Ég var búin að lofa stjúpunni minni að hún mætti koma í dag og vera hjá mér eina nótt en var alveg á mörkunum með að afboða gistinguna því mér fannst ég svo ómöguleg eitthvað að öllu leiti svo ég taldi víst að ég myndi ekki ráða við þessar vanalegu yfirheyrslu hennar um hvort ég væri ekki einmanna svona búandi ein og eiga ekki mann og ekki börn.
Þessi elska hefur haft áhyggjur af mér síðan hún kom í fyrsta sinn til mín eftir að ég flutti hingað inn og skilur auðvitað ekki hvernig hægt er að láta sér líða vel ein, enda ekki nema 11 ára pæja.

En, þetta er prinsessan mín og ekki of oft sem við hittumst svo ég reyndi að kjafta bömmerinn minn í kaf í huganum og sótti hana svo.  
Við skruppum svo í bíó og fórum eftir það á Pizza Hut að fá okkur kvöldmat og svo þegar heim kom þá lögðumst við aðeins upp í rúm að kjafta.
Þar sem við láum uppi í rúmi að ræða hvað hún sé að verða mikil pæja, farin að spá mikið og útlitið þá lét ég hana máta hring sem ég átti, hálsmen og eyrnalokka. 
Ég hafði fyrir löngu ákveðið að byrja að gefa henni hluta af skartgripunum mínum, en vildi samt bíða þangað til ég treysti því að þetta tapaðist ekki á fyrsta degi (heldur degi 3) 
Hún mátaði hringinn og var rosalega ánægð og skellti svo á sig hálsmeninu og eyrnalokkunum og spyr af hverju ég vilji ekki eiga þetta lengur.
Svarið mitt var jafn einfalt og andlega stemmingin, "ég er bara ekki svona pæja lengur".
Það lá ekki á viðbrögðunum frá henni ........ þú ERT og hefur ALLTAF VERIÐ pæja og svo fylgdi þétt knús í kaupbæti InLove    

Deginum og bömmernum reddað á nokkrum mínútum.   Lífið er yndislegt...

 


Persónulegur stórsigur ....

Jæja ég vann persónulegan stórsigur í kvöld (að mínu mati) þar sem ég skrapp með nokkrum vinnufélögum niður í Keiluhöll þar sem ég ætlaði að fá mér einn öl með þeim og horfa á þau spila keilu. 
Þeir sem þekkja mig persónulega vita að ég á afskaplega bágt með að gera hluti sem ég veit ekki hvort ég ræð við.   Þannig hef ég aldrei spilað keilu þrátt fyrir að hafa farið þarna niður eftir mörgum sinnum á árum áður, en ég fékkst aldrei til að gera mig að fífli og taka leik.
Í kvöld fékk ég bara engu ráðið.  Ég var skrifuð í liðið "Le Chicks" og mátti barasta gjöra svo vel og klæða mig í þessa úber lekker skó og taka þátt.
Fyrstu skotin voru nú ekkert sérlega glæsileg og tókst mér að klúðra einu og öðru.  Ef það hefðu verið veitt verðlaun fyrir besta floppið þá hefðu þau komið mér í hlut.   En ég endaði þó með 48 stig og bara nokkuð sátt við mitt.

Nú er bara að finna eitthvað annað fyrir mig til að sigrast á og sjá að það er allt í lagi að gera sig að fífli af og til ..... maður verður jú að hafa húmor fyrir sjálfum sér.


já, jæja, hvað hef ég að segja

Að vera eða ekki vera ..... með vöðvabólgu.

Eftir svakalega vinnutörn síðan í október var aldeilis komin tími á að fara snemma heim og hitta elskuna hana Sigrúnu sem var að nudda mig reglulega í haust.
Eftir að ég skar mig í lófann þá tók ég smá pásu hjá henni (enda verður að vera hægt að nudda lófann líka) en vegna anna í vinnunni þá endaði pásan sem 5 mánaða stopp.

Eins og þetta er vont meðan á því stendur, gott þegar heim kemur og aumt á morgun þá mæli ég með því að allir skreppi í smá nudd reglulega.  

Núna í kvöld er stefnan svo tekin á að fá sér gott að borða, velja sér mynd á VOD-inu og leggjast upp í sófa undir teppi og hafa það 100% gott, eða allavega reyna það.  Skelfileg tilhugsun reyndar að það sé ekki þáttur af Bræðrum og systrum í kvöld því þá vantar allt dramað í líf mitt þessa vikuna.

Hafið það gott í kvöld og njótið þess að vera ekki aum í skrokknum á morgun ....


þar kom að því ...

.... að við Gunnsi félagi svæfum saman.

Við erum búin að vera vinir í rúm 20 ár og eitthvað af mínum vinkonum búnar að tékka aðeins á guttanum, skiljanlega, enda bara frábær strákur.
Ég hef oft verið yfirheyrð að vinkonum líka hvernig standi á því að við séum búin að þekkjast mest alla ævina en samt ekki einu sinni prufað að kyssa hvort annað.  
Við vorum jú táningar þegar við kynntumst og höfum verið einhleyp meiri hluta þessa tímabils bæði.

Núna í kvöld kom þó að tímamótum hjá okkur og er mér bara ánægja að segja ykkur öllum að loksins sváfum við saman ...... hrutum bæði yfir bíómyndinni sem við skruppum á og sonur hans sem með okkur var átti ekki orð yfir því hvað við erum orðin gömul Tounge
Mæli semsagt ekkert sérstaklega með "Be kind rewind" þrátt fyrir flotta leikara, aðeins of róleg mynd eitthvað.


ohh þarf að bíða í 4 ár til að leysa hlaupaársverkefnið mitt

Klikkaði bara alveg á gærdeginum...

Það var búið að segja frá því í útvarpinu að hlaupaársdagur væri upp á útlenskuna dagur fyrir konur að biðja sér mans og ég ætlaði sko að muna það.

Sá mig alveg fyrir mér hlaupandi manna í milli að tékka hvort þeir væru lofaðir og ef ég fyndi einn sem væri svona nokkuð álitlegur og einhleypur þá myndi ég biðja hann að giftast mér.
Ef hann svo segði já þá tæki ég á sprettinn í burtu því sá væri þá ekki heill á geði Woundering

Hefði verið fín leið til að sortera í gegnum singlestrákana ..... ef þeir hefðu sagt nei furðu lostnir þá kannski hefði verið eitthvað varið í þá Tounge


daður hér, daður þar, bara ekki daður allstaðar

Fyrir stuttu var mér sagt að Melabúðin væri toppurinn á tilverunni núna fyrir einhleypa því þar væri verið að selja matvörur í litlum einingum sem pössuðu okkur betur en ársbirgðaeiningarnar í Bónus og Krónunni.   Þeir væru búnir að auglýsa þetta það vel að þarna yrði örugglega flott að skoða í kringum sig því einhleypir myndu streyma þangað að versla.

Ekki að það eigi að vera frásögu færandi en ég skrapp í Krónuna að versla í gærkvöldi og þegar ég var að skila af mér innkaupakerrunni sem í var einn innkaupapoki (greinilega einhleypingur á ferð) þá vatt sér upp að mér maður sem bauðst til að taka körfuna svo ég þyrfti ekki að skila henni á sinn stað og þegar ég þakkaði boðið þá spurði hann hinn sætasti hvort það væri eitthvað fleira sem hann gæti gert fyrir mig en ég bara varð svo hlessa á þessu opna daðri í stórmarkaðinum að ég gat ekki fundið gott svar við þessu og horfði svo bara á eftir manninum kafrjóðum í framan halda áfram með kerruna í burtu.

Hvernig var með daðurnámskeiðið ..... daðra eins og bjáni í símann við þá sem ég þarf að eiga samskipti við vegna vinnunnar, en þegar kemur að daðri svona "face to face" þá bara dett ég alveg úr sambandi Crying


til lukku með daginn konur góðar ...

.. sérstaklega þið einhleypu konur, við fáum víst ekki mikið meira en kveðju frá vinkonu í tilefni konudagsins Tounge

Var í fjölskylduboði í gær þar sem umræðan fór að vera um aldur okkar systkinanna og hvernig stendur á því að börn þeirra bræðra minna eru að nálgast mig svona hratt í aldri. 
Verð að viðurkenna að þegar ég gifti mig 29 ára gömul þá hefði ég ekki trúað því að ég sæti einhleyp og barnlaus að verða fertug konan (já samt sko 55+ mánuðirnir í það ennþá) en svona veit maður aldrei hvaða spilum manni eru útdeild.
Komin tími þó að stokka spilin og nýta þetta tímabil mitt betur - að geta gert hvað það sem ég vil, hvenær sem ég vil.  Hvað eru ekki margir sem myndu kjósa það af og til Woundering


Engin leið að koma stemmingunni til skila hér ....

Hvað er á seiði þarna frammi sögðum við vinkonurnar við hvor aðra um leið og við læddumst hálf tilbúnar í gervunum okkar fram á gang á Hótel Örk og brustum í sama æðisganginn og hinir þar sem hópur furðuvera voru að læðast út úr hverju herberginu á fætur öðru tilbúin í fordrykkinn.
Hópurinn samanstóð af vinnufélögum mínum og mökum þeirra þar sem fyrirtækið hafði boðið okkur í 3ja rétta máltíð, ball og gistingu síðustu helgi og til að krydda aðeins upp stemminguna var ákveðið að hafa grímuball.

Við kláruðum að taka okkur til og svo var ætt af stað upp á 3ju hæðina að kyssa og knúsa vinnufélagana og reyna að átta sig á gervunum.
Þarna voru samankomnar ævintýrapersónur, bíómyndahetjur, dýr og frægir einstaklingar auk nokkurra aðeins sparilegri útgáfna af vinnufélögunum, enda ekki allir tilbúnir í svona sprell.

Eftir fordrykkinn var farið í halarófu mestu krókaleið gegnum hótelið til að fara í hátíðarsalinn og þar beið okkar flottur matur og enn betra spjall svo að lokum steig Stuðbandalagið á svið og hélt uppi þvílíku þrumu stuði fram eftir nóttu að það var varla tími til að skreppa á barinn.
Á barnum var reyndar líka hættulegt að vera þar sem allir elska launafulltrúann sinn og vildu skála við mig í skotum sem ég reyndar svo núna kenni um að ég hafi haft úthald til að spjalla við mannskapinn til kl 6 um morguninn og verið á trúnú með nokkrum af utanbæjarstrákunum mínum auk nokkurra pólverja.

Það er ekki nokkur leið að koma til skila stemmingunni sem var þarna og þrátt fyrir að vinkonurnar séu búnar að hringja oftar en einu sinni að spyrja hvar sögurnar séu þá eru bara bestu vinirnir svo heppnir að fá að sjá myndir og þannig sjá hvað þetta var gaman.

Mæli með því að allir fari á eins og eitt grímuball á fullorðinsárunum ....

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband