Færsluflokkur: Bloggar

tapleikur en samt sátt ....

Munið þið eftir því hvað ég var mikill kjáni að gleyma alltaf að skoða í körfuna hjá fallega manninum í Nóatúni?

Skrapp á völlinn áðan að horfa á mína menn tapa einu sinni enn, en það skipti ekki öllu máli í þetta skiptið því fyrir ofan mig sat fallegi Nóatúns maðurinn og ég gat verið lúmsk að kíkja á hann í hvert sinn sem áhangendafélagið söng og trúið mér, þeir hafa aldrei sungið svona mikið áður og ég naut þess.  

Núna er bara að fara pent í að yfirheyra brósa minn og mágkonu því þau þekkja fallega manninn svo núna er bara að jón spæjó-ast á næstu dögum og sjá hver guttinn er ...


Gladdi mig ...

... og alla hina í starfsmannaútilegunni sem fengum þessi skilaboð samtímis enda farsímarnir okkar í númeraröð.   Samt gaman í miðjum fjöldasöng að sjá alla grípa í farsímana því þeir píptu allir á svo svipuðum tíma.

Yfirmáta gáfað fólk þó að starfa saman því enginn féll fyrir svikunum, eða ætli það hafi bara verið af hræðslu við að þurfa að deila vinningnum með öllum hinum vinningshöfunum ....      Tounge


mbl.is Varað við SMS skilaboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100 myndir af hafinu ....

... komu með mér heim úr útilegunni minni Shocking

Var að koma heim frá Arnarstapa þar sem við vinnufélagarnir áttum yndislega helgi saman.
Fór snemma af stað að sækja Gunna og son á föstudag og æddum svo upp í vinnu til að skipta út bílum.  Til að koma hoppuköstulunum, samkomutjaldinu, borðunum, stólunum, grillinu, matnum og öllu hinu þurfti að ferma einn af stærri bílum fyrirtækisins og þá vantaði bílstjóranum að koma nýja jeppanum sínum yfir með tjaldvagninn aftan í og ég tók það náttúrulega bara að mér enda bíladellukona sem nýt þess að keyra aðra kagga.

Á föstudagskvöldið þegar við vorum búin að koma okkur fyrir og eitthvað af fólki mætt á svæðið þá skruppum við í snjósleðaferð upp á Snæfellsjökul og þrátt fyrir að hafa reynt allt mitt besta til að velta sleðanum þá tókst það ekki en það var kannski þar sem ég átti orðið erfitt með að gefa honum inn því ég hef greinilega ekki fullan kraft í hendinni eftir slysið hérna forðum.
Þegar til baka kom þá var verið að klára að setja upp samkomutjaldið sem var svo ekki nýtt af okkur heldur af ungum Ólsurum sem sáu þarna flott tækifæri fyrir samkvæmi.

Á laugardag voru krakkarnir duglegir í hoppuköstulunum og við hin dugleg að blanda geði hvort við annað í miðjum tjaldbúðunum.   Um hádegi ákváðum við Gunni og sonur svo að drífa okkur yfir á Ólafsvík í hvalaskoðun.   Þegar klukkutíma útstím var yfirstaðið þá fengum við að sjá helling af höfrungum sem léku sér við bátinn.  Rebbý er myndasmiður mikill og snillingur á litlu lélegu ódýru myndavélina svo það var smellt af og smellt af og smellt af og smellt af til að ná mynd af höfrungunum og svei mér ef það eru ekki á 4 af þessum 100 myndum þar sem sést eitthvað annað en haf, himinn og sól.  Tounge
Þrátt fyrir að hafa sloppið við sjóveikina ætlaði ég varla að geta borðað þegar við komum til baka í tjaldbúðirnar því þá fór maginn á hvolf.  En eftir matinn fengum við okkur aðeins að drekka og svo var hljómsveit fyrirtækisins kölluð saman og spilað og sungið lengi vel.
Stofnaður var líka skemmtihópur fyrir árshátíðina sem nefnist 50/50 þar sem 3 starfsmenn og 3 makar tóku þátt í að syngja og leika textann af lögunum (Frystikistulagið var einfaldlega til að gera útaf við leikendur og söngvara vegna hláturs) en æfingar fyrir árshátíð munu hefjast strax í ágúst.

Í morgun var svo bara skriðið í sturtuna og svo út að taka saman þar sem næsta sturta var enda kom þessi líka yndislegi hitaskúr, en klukkutíma síðar þegar búið var að pakka öllu var maður orðin þurr aftur enda heitur vindur og sól á himni.

Þakka vinnufélögum kærlega fyrir góða helgi og nú er bara að passa að gefin loforð klikki ekki þar sem Óli J ætlar með mig á mótorhjól og Óli R og Óli S ætla með mig í jeppaferð þar sem ég á að keyra yfir ár á kagganum mínum (þetta eru 2 hlutir sem ég hef aldrei lagt í en fæ víst ekki að hræðast áfram).


útilegudótið mitt sem er í útilegu án mín ....

Eruð þið að meina það, fer engin nema ég úr singleklúbbnum í vinnunni í hina árlegu útilegu starfsmannafélagsins ......
Þetta er búið að hljóma í huga mér aftur og aftur síðustu vikurnar og verður að segjast bara eins og er að þrátt fyrir að ég vinni með frábæru fólki þá var ég ekki alveg að gúddera að vera eina staka persónan í 100 manna/kvenna/barna helgarferðinni okkar næstu helgi.

Eftir sólbrunann á sautjándanum þá ákvað ég að heyra bara í Gunnsa í dag og sjá hvort ég gæti ekki heimsótt hann bara í vinnuna og jafnvel tælt þá feðga í bíó í kvöld, en viti menn, eru þeir feðgar þá ekki bara heima að láta sér leiðast í sumarfríi.   Láta sér leiðast er nú kannski ekki alveg heiðarleg frásögn en hentar mér vel eins og er.
Eftir um 10 mín spjall þá var ákveðið að þeir kæmu bara með mér í útileguna og það sem meira er þá myndum við bara leggja í hana á morgun og eiga þannig einn extra dag til að njóta útiverunnar.
Snilldarhugmynd, alveg þangað til ég kíkti niður í geymslu og sá að þar var allt tómt enda hafði ég eftir árlegu ferðina í fyrra lánað allt og þá meina ég ALLT útilegudótið mitt og hafði aldrei nennt að sækja það aftur.
Nú voru góð ráð dýr og ég hringdi í vinkonuna sem hafði farið í stóru ferðina og viti menn .... er hún ekki bara í sumarfríi líka með dótið mitt með sér Pinch.

Nú er bara að mæta í Rúmfó í fyrramálið og kaupa enn fleiri kælibox, annað borð, einhverja stóla og vindsæng, skella þessu í bílinn og matnum líka en ég pantaði mér svo bara pláss í tjaldinu hjá strákunum svo ég sleppi við meiri endurnýjun dóts en þetta.

Skjóna mín, vona að dótið sé að nýtast vel ... auðvitað notaðir þú það enda það komið með lögheimili bara hjá þér Tounge


Loksins afslöppunardagur

Jæja fyrsti alvöru afslöppunardagurinn í sumarfríinu liðinn og mikið var slappað af ....

Byrjaði á að sofa út og þegar ég loksins nennti fram úr rúminu þá lagðist ég upp í sófa og kveikti á sjónvarpinu bara og náði mér í gamla mynd sem ég byrjaði aðeins á.
Rétt fyrir hádegi hringdi ég í stolta frændann minn sem varð pabbi (og gerði mig að afasystur) í síðustu viku og pantaði að fá að kíkja á prinsessuna í dag sem var auðfengið.   
Það er ekki skrítið að frændi sé stoltur og unnustan hans líka enda er þetta með fallegri börnum sem fæðst hafa (ekki hlutdræg neitt) og ég sat með hana í fanginu í klukkutíma eða svo áður en ég gat slitið mig frá þeim og fór með langömmuna að versla síðbúin hádegismat sem við borðuðum út í Örfirisey þar sem við sátum og hlustuðum saman á hafið.
Þegar ég var búin að skila gömlunni heim þá fór ég upp í sófa aftur og hélt áfram að horfa á myndina mína nema hvað ég steinsofnaði yfir henni og svaf bara alveg í 2 tíma.

Þegar ég loks vaknaði aftur þá reddaði ég mér snemmbúnum kvöldmat út í sjoppu og fékk svo vinkonu í heimsókn í gott spjall með hvítvín með sér til að liðka fyrir umræðunum, en vinkonan þurfti reyndar að byrja á að vera bara ein heima hjá mér og hangsa yfir sjónvarpinu því Vilma elskan hringdi ílla þjáð af magapínunni sinni og bað mig að skutla sér upp á læknavakt.
Eins góð vinkona og ég er þá ákvað að æða út þó hér væri heimsókn og endaði með Vilmu mína upp á bráðamóttöku Landsspítalans því þetta var ekki bara magapína heldur sýking í nýra, en hún er nú komin heim og líður betur.
Við vinkonan sátum svo hér og spjölluðum fram yfir miðnættið og fórum yfir fullt af málum en gleymdum reyndar að sötra hvítvínið.

Nú er bara að koma sér í svefninn aftur og eiga fínann þjóðhátíðardag í miðbænum í fallega veðrinu sem á að verða á eftir .....
GLEÐILEGAN 17.JÚNÍ allir saman


Afslappaða sumarfríið mitt ...

Enn heldur ástandið áfram hjá mér ...

Var að vinna til að ganga 18 á föstudaginn því ég var að fara í viku frí og þurfti endalaust að klára einn hlut enn - ótrúlegt hvað maður getur verið tregur, það er ekki eins og þetta myndi ekki reddast án mín.
Þegar vinnu lauk var brunað að sækja vinkonu mína, ætt hingað heim og opnaður einn kaldur sem var drukkin fyrir og eftir sturtuna sem var svo snögg að ég var ekki viss um að hafa blotnað einu sinni.   Eftir það var hringt á leigubílinn og brunað í heimahús þar sem var verið að elda handa okkur góðan mat og svo setið þar við át og drykkju og gott spjall fram yfir miðnættið.

Var svo komin á fætur kl 9 í gærmorgun og ákveðin í að taka því rólega aðeins fram eftir degi.   Náði að kjafta í símann í 2 tíma (við fleiri en eina manneskju) og svo náði ég að sofna aðeins yfir spólu sem alveg bjargaði deginum því þegar ég vaknaði aftur þá var að drífa sig enn og aftur í sturtu og græja hárið og finna sér föt því það var komið að árlegu singlekvennakvöldi.
Það gleymdist reyndar að segja mér að það mætti ekki klæðast svörtu á þessum kvöldum (minn fyrsti vorfagnaður hjá hópnum) svo ég var rekin upp með látum að skipta um föt og svo var ætt af stað til einnar úr hópnum og þar beið okkar förðunardama og endalaust af góðum mat.
Eftir nokkra klukkutíma át og spjall og drykkju var kíkt í bæinn og ætt á milli dansgólfa og ekki spurning að við vorum flottustu konurnar í bænum, allar í ljósum fötum og flott farðaðar.

Núna er ég rétt nýskriðin framúr og er að herða mig upp í að byrja daginn, en í dag er mæting á völlinn (KR-Fylkir) að styðja mína menn og svo í snæðing enn og aftur að heiman.

Fyrstu 2 dagarnir í afslappaða sumarfríinu mínu munu semsagt vera þrælskemmtilegir en helvíti strembnir .....


ég fíla James Blunt

eins og greinilega fjölmargir aðrir ef marka mátti höllina í kvöld.

Verð þó að segja að hann hljómar betur svona live heldur en í græjunum mínum ... miklu meiri kraftur í kallinum þegar hann er uppi á sviði þó það hafi ekki sést mikið í stúfinn.

Við Vilma reyndar bara rétt náðum tónleikunum .....  http://vilma.blog.is/blog/vilma/entry/566628/


tómur hugur á fleygi ferð

Átti sérkennilegan dag í dag þar sem hugurinn var eiginlega bara tómur.  Ég vann vinnuna mína meira af vana en áhuga og gat ekki beðið eftir að klukkan yrði 16:00 því ég var búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera fyrstu mínúturnar eftir vinnudaginn.

Þegar ég hef verið ílla fyrirkölluð í gengum tíðina þá hef ég skroppið niður í fjöru og horft á hafið og ákvað að prufa hvort slíkt myndi hjálpa mér í dag.    Hef reyndar oft hlegið að sjálfri mér fyrir þetta þar sem ég er vatnshrædd með eindæmum og myndi ekki vilja þurfa vera of nærri hafinu (nema á Spánarströnd).
Það virðist vera eins með hafið eins og jökulinn .... ég finn fyrir vissri sálarró í návist þeirra.

Rétt við vinnuna mína er fínasta fjara til að sitja við og þar sat ég í rúman klukkutíma í dag og hringdi reyndar eftir spjalli sem gerði mér gott þó það færi ekkert af alvöru inn á vandann sem hjá mér býr ...... en ég ákvað þó í framhaldinu að reyna að opna sál mína og grúska hvar þar er að finna sem laga þarf en ég veit að það er hellingur, bara búið að vera spurning hvenær ég legg í þá vinnu.

Spurning að hringja í fyrrverandi og fá uppgefið hjá hvaða sálfræðing hann fékk sína sálarró eftir skilnaðinn .....

 


af hverju gerir þú þér þetta ....

... sagði mamma gamla við mig þegar hún kallaði á mig í kvöldmat í kvöld ....

Þetta var mikil samviskuspurning sem þarna kom .... og ég bara veit ekki hvort hún verði það spark sem ég þarf til að taka aðeins til í lífi mínu og sálartetrinu eða hvort mér takist enn aftur að blokka á þessa vakningu og haldi áfram sama striki.

Gamla konan er farin að hafa miklar áhyggjur af líferni mínu og hraðanum sem er í kringum mig.  Það er samt ekki svo að hún viti allt um mitt líf heldur hefur hún orðið ílla vör við hversu uppstökk ég hef verið síðustu vikurnar vegna þreytu og einfaldlega uppgefin.
Viku eftir viku hef ég sofnað í stól inni í stofu hjá henni meðan hún eldar handa okkur kvöldmat, en síðan ég flutti hérna inn hef ég reynt að kíkja við hjá gömlunni minni einu sinni í viku í mat.  
Núna í kvöld gat hún bara ekki lengur horft upp á þetta og ákvað að taka dótturina í smá spjall.

Hún vildi að ég spáði í hvað væri að fyrst ég gæti ekki bara átt rólegt kvöld heima hjá mér eða setið róleg án útvarps-/sjónvarps-/tölvuáreitis þegar heim frá vinnu eða skemmtun kemur.

Þið sem þekkið mig vitið hvernig dagskráin er búin að vera síðustu mánuðina en vitið sennilega ekkert frekar en ég hvað ég er að forðast.

Gladdi konuna þó með því að tilkynna henni að ég yrði í sumarfríi í næstu viku en það var skammvinn gleði þegar ég taldi upp dagskrá næstu daganna..... James Blunt fimmtudag, matarboð og djamm með mömmu stjúpunnar minnar á laugardag, heimsókn á mánudag og dans um kvöldið og rölt með vinkonu í bænum 17.júní svo er friður miðvikudag og fimmtudag en á hádegi á föstudag verður farið af stað í fyrirtækjaútileguna sem er svo fram á sunnudag.

Er ég hræðast einmannleika eða ristir þetta dýpra ....


Ekki eldist öll tónlist jafn vel ...

Hvað gerir maður við hallærislega, leiðinlega, rykfallna geisladiska?

Fékk þá heimsku flugu í hausinn þegar heim kom í dag að setja tónlistina mína alla inn í tölvuna og flokka hana síðan sem heimatónlist og djammtónlist.   Ég tók út alla 250 geisladiskana sem voru að rykfalla ofan í skúffu og byrjaði að kanna hvort þeir væru komnir inn í iTunes í vélinni og viti menn ..... flestir eru ekki einu sinni þess virði að hlaða niður Gasp

Búin að taka yfir 100 diska til hliðar í bunka sem ég kalla "mun aldrei hlusta á aftur" og versta við þann bunka er að ég get ekki skrifað hann á fyrrum eiginmanninn heldur eru þetta að miklu leiti diskar sem ég hef eytt peningum í fyrr á lífsleiðinni.
Annaðhvort hefur tónlistarsmekkur minn breyst svona í gegnum árin og þroskast eða þá að ég hafi verið aðeins of dugleg að eltast við einhverja "one hit wonders" sem skilja ekkert eftir sig.

Vilma mín, má bjóða þér að ættleiða gamla geisladiska? 
Þú ert nú með svo opinn tónlistarsmekk . . . . . .     LoL 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband