Færsluflokkur: Bloggar

frábæra fríið ...

... er rétt byrjuð á degi 2 í 3ja daga fríinu mínu og bara verð að segja ykkur hvað ég er búin að eiga góðan tíma.

Vaknaði seint í gær og skreið út á svalir þar sem ég settist í sólbað, fékk mér nýkreistan ávaxtasafa og ristað brauð með osti og jarðaber í eftirrétt.   Fór svo í sturtu og skrapp í búðir þar sem ég eyddi tugum þúsunda og var svo hundraðþúsundasti viðskiptavinurinn og fékk allt frítt og að auki 100.000kr lagðar inn á bankareikninginn minn til að eyða á næstu dögum.
Skrapp svo í langan lunch með æðislegum strák og fengum okkur svo rölt niður á tjörn og gáfum öndunum aðeins að borða en röltum svo bara hringinn hönd í hönd og röbbuðum saman.
Síðdegis hitti ég svo 3 bestu vinkonur mínar og við fengum okkur Margarítu svona rétt fyrir kvöldmatinn og settumst svo til borðs þar sem humar var í forréttinn og naut í aðalrétt og enginn hafði lyst á eftirrétti.
Fór svo heim þar sem aldrei þessu vant var spennandi sjónvarpsefni og sofnaði sæl í sófanum eftir yndislegan dag.

Vá hvaða þetta hefði verið fullkomið, en í raunveruleikanum þá bara fór ég á flakk með mömmu og við þurftum að borga fyrir allt sem við keyptum FootinMouth   En góður dagur engu að síður ....


.. fyrsti í "langa" fríinu mínu ...

jæja svaf aðeins út í morgun en ætlaði engan veginn að nenna fram úr í dag því hver vill byrja 3ja daga frí á því að vakna við vekjaraklukkuna?
Er skráður einkabílstjóri múttu gömlu og ætla með hana til augnlæknis og í búðir í dag og verð kosin enn og aftur uppáhaldsdóttirin hennar ... en það er svosem ekkert erfitt þar sem hún á bara eina Tounge 
Á morgun verð ég að vera Rebbý hin ótrúlega þar sem ég er með geymslu fulla af pappa og plasti sem ég er búin að vera á leiðinni með í Sorpu síðan í febrúar, en nú verður ekki lengur hjá því komist þar sem ég þarf að komast inn í geymsluna og það alveg inn í horn til að finna 4ra manna tjaldið mitt fyrir útileguna um helgina því ég bíð ekki annarri dömu að deila með mér litla tjaldinu og stóru vindsænginni, þó það hafi gengið síðast Joyful

Vona að þið sem eruð í vinnunni skemmtið ykkur vel ... fyrsta vinnusímtal dagsins komið til mín.  Þori samt alveg að viðurkenna að það er gott að einhver haldi að staðurinn gangi ekki án mín.


... fjármálastrákurinn ...

... fyrir tæpu ári síðan byrjaði ég að spjalla við jafnaldra minn af hinu kyninu og höfum við alltaf haldið því volgu að hittast, en aldrei orðið neitt að því.  Smellum voðaleg vel saman með hvað eina sem við ræðum, nema hvað ég sé kannski ekki tilganginn í að kynnast betur strák sem er sjaldnar heima á klakanum en í útlöndunum.

Núna hafði ég ekki hitt á hann í meira en mánuð þegar hann poppaði upp á msn hjá mér í gær en merkilegt nokk hvað hann gleymist aldrei.   Við spjölluðum og engu líkara en við hefðum heyrst síðast fyrir hálftíma síðan því það er eitthvað bara svo auðvelt að spjalla við hann.  
Mín spurning er bara .... hvernig getur fólk sem aldrei hefur hist verið svona spennt fyrir hvort öðru en jafnframt ekki látið undan því að hittast?
Hann ferðast mikið og heima hjá honum bíða mín gjafir sem ég hef pantað í útlöndunum og nú er spurning hvað mig langar í frá honum núna (annað en hann sjálfan) Halo

 


... varkára konan ...

... hef ekki áður fengið þennan stimpil á mig í deitheiminum Tounge

Maðurinn sem ég hitti á föstudaginn (afinn) vildi endilega fá að kíkja í heimsókn til mín, en ég sagði það ekki ganga alveg strax þar sem ég bara væri ekki að nenna að standa í einhverju bulli, en fékk þá að vita að honum finnist ég kannski full varkár kona og telur þetta kannski vera ástæða þess að ég sé ekki komin með mann upp á arminn.   
Hehehe ... ég varkára konan, kannski ég ætti að gefa honum upp slóðina á þessa netsíðu mína og þá myndi hann skilja af hverju ég vil bara vera nokkuð róleg þegar ég hitti loksins á mann sem kannski er vit í. 
Einhverra hluta vegna vill ég líka bara vera viss um að hann sé ekki lofaður fyrst við hittumst fyrst í bíltúr og svo vill hann næst hittast í heimahúsi og það mínu ... lofar kannski ekki góðu ..... en sjáum til


... letilíf ...

Ákvað eftir síðustu helgi að eiga bara rólega helgi núna og hef svo sannarlega staðið við það.
Eyddi föstudagskvöldinu í að sitja hjá múttu og horfa á "so you think you can dance" og verð að viðurkenna að mér þykja það flottir þættir þegar í alvöru keppnina er komið.
Skrapp svo bara í vinnuna í gær og var voðalega dugleg í smá tíma (vinnufriður og allt þar sem ég var ein í húsinu) og fór svo og lagði mig í Smárabíó með Gunnsa og strákunum hans og átti svo bara rólegt kvöld ein heima.
Hef vonandi frá einhverju spennó að segja síðar, en elskurnar mínar, verið ófeimin við að tjá ykkur svo ánægjan af þessum skriftum verði sem mest Blush


... nr 2 ? ...

.. gleymdi að horfa á Batchelorinn í gær svo ég kann enn ekki að fara á rómantískt stefnumót með 2 kk með mér (en það kemur endursýning einhvern tíman), en ég skrapp þó á stefnumót í gær.

Reyni allt til að halda úti fréttum af einhverju spennandi í lífi mínu, en vitið þið bara hvað .... stefnumótið gekk bara vel og virðist maðurinn vera hinn eðlilegasti einstaklingur þó afi sé.   
Já ég sagði afi, ákvað að slá til þegar maður mér 10 árum eldri bauð mér í göngutúr, en þurftum svo reyndar að breyta því í bíltúr þar sem þessi agalega rigning kom í gær.   En við áttum þetta fína spjall og um allt milli himins og jarðar og erum með álíka húmor og nú bara sjá hvað gerist á stefnumóti nr 2 sem ég er búin að samþykkja að koma á  (það hafa nú ekki komið mörg stefnumót upp á síðkastið þar sem möguleiki væri að maður segði já við annarri tilraun svo þetta var áfangi)
Segi ykkur allt um það síðar, ef af verður Happy


... rómantísk máltíð fyrir 3 ...

... var að horfa á Skjá1 í gærkvöldi,  ekki að það sé frásögu færandi, en það fer voðalega fyrir brjóstið á mér að heyra af stefnumótunum sem þessi ítalski prins er að fara með dömurnar á.
Ein fær deit með honum stök, svo einhver hópur, svo fara 2 saman með honum í rómantískan kvöldverð að hætti ítala .... hvað er rómó með að deila "prinsinum sínum" með annarri dömu sem vill hann líka?

Þyrfti kannski bara að prófa að bjóða 2karlmönnum í mat í einu og sjá hvort það yrði voðalega rómó að láta þá slást um athygli mína ....


... þessvegna fá sér tvo ...

Fór eftir vinnu að hitta fyrrum vinnufélaga mína.   Tvær voðalega smart konur sem eru hreint út sagt í öðrum klassa en ég.  Alltaf flottar í tauinu, farðaðar og hika ekki við að henda 200þús í föt á einum mánuði, jafnvel í eina flík.

Ég mætti með nýja bling bling hringinn minn að hitta þær og þá rifjaðist upp yndisleg stund sem við áttum fyrir ca. 4 árum í Kringlunni þar sem við "funduðum" reglulega í vinnutímanum (sök sér þar sem önnur þeirra var eigandinn og bauð upp á þetta sjálf)
Eigandinn hafði séð svo fallegan hring í glugganum á Leonard og bara varð að sýna okkur hann.  Ég er skartgripaóð og sé kannski minnst eftir peningum sem ég nota í skartgripi svo ég var náttúrulega mætt í Kringluna að skoða gripinn.  
Við röltum að búðinni og kíkjum í gluggann og jú það vantaði ekki að þetta var svakalega fallegur hringur, gylltur með demöntum. 
Það var mikið rætt um dýrgripinn og ég skoðaði verðið og svelgdist aðeins á verðmiðanum sem sýndi 250þús.   Ég sannfærðist alveg um klassa muninn á okkur þegar þær ræddu um hvor yrði fyrri til að fara inn og kaupa sér hringinn því hann væri svo ódýr ... þess vegna kaupa tvo ....
Svo kom reyndar í ljós að þær náðu ekki að lesa öll núllin fyrir aftan þessa 2 og 5 og töldu gripinn kosta 25þús .....


... finnið fyrst tjaldið ...

... var að rifja upp síðustu útileguna mína nýverið þar sem næsta er að renna upp, en síðasta útilega var reyndar síðasta sumar.

Bauð vinkonu minni að deila með mér tjaldi í útilegu þar sem ég vissi að ég ætti 4ra manna tjald inni í geymslu.   Hún þáði það þessi elska og við fórum að taka okkur til fyrir Þórsmörk síðustu Jónsmessuhelgi. 
Ég æddi niður í bæ og keypti queen size vindsæng inn í tjaldið svo við svæfum vel, keypti svo pumpu til að geta pumpað lofti í hana og svo var ætt af stað í geymsluna að finna tjaldið svona rétt meðan verið var að hlaða hinu inn í jeppann.
Nema hvað .. inni í geymslu er voðalega mikið af dóti, klósettpappír frá íþróttafélaginu, dúkkurúmið og -húsið sem ég lék mér með fyrir 30 árum, gömul hillusamstæða og já, allt bara nema 4ra manna tjaldið.  Ákvað þá í fússi að fyrrverandi hefði tekið það með veiðidótinu sínu nokkru áður og kom fram blótandi honum í sand og ösku með litla 2ja manna kúlutjaldið sem ég hafði átt fyrir ansi mörgum árum síðan.  
Upp í Þórsmörk er haldið og voða hamingja í bílnum þar sem við þrjú sem vorum að fara saman höfðum aldeilis átt margar gamlar minningar þaðan frá árum áður.  Rifjuðum upp gamla skandala og við stelpurnar byrjuðum að fá okkur bjór (þetta voru sko Gunnsó og Limma).

Þegar upp í Þórsmörk var komið var fundinn fínn staður til að tjalda á, allt borið út úr bílnum og svo byrjað að tjalda.   Merkilegt nokk þá var hvergi rifu að finna á gamla tjaldgarminum (sem var minnsta tjaldið á svæðinu svo það sé á hreinu) og við fáum góðfúslegt leyfi til að geyma föt og mat inni í tjaldi hjá Gunnsó sem var einn í sínu tjaldi.  
Svo kom að því að byrja að pumpa í nýju dýnuna .... settist í stellingu og byrjaði með fótapumpuna mína að pumpa - pump- pump- pump - en ekkert er að sjá í dýnunni svo við förum að kanna málið og sjáum þá fljótt að þessi pumpa á bara ekkert við þessa dýnu því loftið fór allt meðfram.  
Þá voru góð ráð dýr og Rebbý send af stað, aðeins í bjór, að blikka strákana á jeppunum.   Vissulega og voru þeir allir voðalega áhugasamir um að blása lofti í dýnuna og hjálpuðu mér meira að segja með hana upp að tjaldi ..... þegar þangað kom þá fóru þeir hinsvegar að hlægja og gátu engan vegin séð að dýnan myndi passa inn í þetta litla gráa grey mitt. 
En ég skellti mér niður á hné með dýnuna, vafði hana eins mikið saman og ég gat og þurfti reyndar líka aðeins að tappa af henni en náði að vöðla henni inn í tjaldið þrátt fyrir hlátrasköll frá áhorfendum.   Við komumst hinsvegar að því að þegar inn var komið þá var engin leið að loka tjaldinu, en er það ekki bara aukaatriði þegar maður er í góðra vina hópi ......

ps  fyrsta sem ég sá þegar heim kom á ný var 4ra manna tjaldið út í enda á geymslunni ... hafði keypt nýjan poka utanum það sumarið áður en gleymt því svo .....


... gríptu gæsina ...

... tók mér 3ja tíma sumarfrí í dag eftir hádegið því ég gat ekki hugsað mér að láta þennan sólríka dag fram hjá mér fara.  Settist út eftir matinn og fór svo inn, gekk frá greiðslum dagsins og kvaddi svo bara.
Búin svo að sitja úti á svölum í sólinni í dágóða stund, orðin sæmilega rauð svo ég þori ekki meiru og nú er bara að vona að roðinn sé vegna sólarinnar en ekki vegna þess að ég lagði loksins í að hringja í kunningja og bjóða honum út.  
Skelfilegt hvað maður er vitlaus og kjarklaus, því aðstæður eru breyttar hjá honum núna og þrátt fyrir að hafa verið til í þetta fyrir nokkrum vikum þá er ekki staður og stund núna....   
Mín alltaf jafn heppin í karlamálunum, því gerði ég þetta ekki fyrr, hvað hefði verið það versta sem hann hefði getað sagt ..... nei .... ekki eins og það hafi ekki verið notað af manni sjálfum og þeir strákar eru alveg enn á lífi

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband