gleymdi að daðra við lögguna

Nú er ár síðan ég átti fyrstu nóttina mína í íbúðinni minni.   Fyrsta íbúðin sem ég á bara ein og ég man enn hvað það var nice að labba hérna inn, setjast á tómt gólfið og hugsa ..... þetta er mitt.

Ég var ekkert voðaleg lengi að koma mér fyrir og finnst íbúðin mín vera yndislegasta skot bæjarins (skot þar sem hún er svo lítil)   En ég er líka búin að sjá að skotið mitt er í einni verstu sameign landsins. 
Hér eru lögreglubílar fyrir utan hús allar helgar og maður kippir sér ekki lengur upp við að sjá þá fyrir utan og í dag brá mér bara ekkert þegar þeir bönkuðu uppá hjá mér.

Hafði heyrt hér í húsinu sögur af því þegar slökkviliðið braust inn í íbúðina mína til að athuga með reyk sem barst frá húsinu, en í dag hafði verið tilkynnt um innbrot og þeir voru bara ekki með það á hreinu hvar brotist hafði verið inn svo þeir könnuðu allar íbúðir og tékkuðu hvort við hefðum heyrt eitthvað.  
Engin kannaðist við innbrot og allt virtist í sóma, bara hrekkur væntanlega en ég klikkaði á að nýta mér tækifærið og daðra við þá þar sem menn í einkennisklæðnaði eru náttúrulega bara flottir .....

 


Ætti ég að versla mér nýtt sjónvarpstæki?

jæja gott fólk, fór óvart að skoða nýtt sjónvarp því litla 21" mín er eitthvað farin að minnka svo mikið að ég get ekki lengur lesið textann þegar á þarf að halda.

Fór og fann Toshiba tæki sem ég gæti alveg hugsað mér að eiga og kostaði svosem ekki mikið í búðinni, en þegar heim var komið (án tækisins sem betur fer) tók ég málið á hillusamstæðunni og komst að því að tækið yrði helvíti (afsakið orðbragðið) dýrt.
Ég þyrfti að kaupa mér nýja hillusamstæðu undir tækið og þar sem hún er í stíl við borstofusettið þá þyrfti ég að endurnýja það líka.   Ekki að ég hefði neitt mikið á móti því ef ekki þyrfti að borga það.
Svo í ofaná lag þá er stofuborðið og hliðarborðið alveg í stíl við borðstofusettið og eins sófasettið.

Nú er bara tvennt að spá:
 -  Halda gamla tækinu og eyða engu
 -  Kaupa nýtt tæki og endurnýja öll húsgögnin mín

Hvar skyldi ég enda .....


get stolt sagt

... að ég þekki mig rosalega vel og vissi sem var að ég hélt mér ekki frá tölvunni í heilt kvöld í gær en fór þó snemma að sofa.

Nú er hinsvegar að koma helgi og ég er með verkefni fyrir helgina:

Ganga endanlega frá jóladótinu.
Þrífa íbúðina
Fara í búðir að kaupa inniskó og skoða hvort ég finni úlpu.  
Skreppa í bíó. 
Halda ostapartý fyrir vinkonur (að Gunna meðtöldum ef hann kemst frá).
Kíkja á strákana í bænum (hef ekki gert það síðan ég lenti í óhappinu mínu).
Og slappa af þar sem það er loksins komið að helgarfríi

Vona að þið njótið helgarinnar ykkar Tounge


tímaþjófurinn ..

.. nú er vitlaust að gera í vinnunni eins og alltaf á þessum árstíma fyrir okkur sem vinnum tengt bókhaldi og því verður lítið um sendingar hingað inn næstu daga.

Verð reyndar líka að játa á mig að ég lét platast í að setja upp facebook síðu og er bara að tapa mér í einhverju bulli þar inni.   Hvað verður það næst - þetta internet er að taka yfir tíma minn og ég bara verð að bremsa mig orðið af.

Á morgun skal fartölvan ekki fá neina athygli.
Matur hjá mömmu og svo bara gönguferð og smá sjónvarp og snemma í bólið.

Óskið mér góðs gengis Tounge


Áramótaheitið varð brotið 2.janúar ...

... entist ekki lengi hjá mér núna frekar en áður.

Þið sem voruð með mér hér í byrjun sáuð að ég gaf alveg karlkyninu séns á að kynnast mér og heilla mig (þeir náttúrulega heilluðust um leið sjálfir - þarf vart að taka það fram) með mjög svo misjöfnum árangri.
Eftir nokkuð mörg mislukkuð stefnumót þá bara gafst ég upp og lét þá eiga sig, sá að það var enginn þarna úti tilbúinn fyrir frábæra stelpu eins og mig.  
Ég svosem viðurkenni að ég kíkti af og til enn inn á þann soramiðil sem Einkamal.is er orðin til að daðra við þá enda þjáist ég af daðurþörf mikilli Tounge  Ekki hægt að leggja hana alla á samstarfsfélaga og aðra tengda vinnunni.

Nú aftur á móti ákvað ég það í einsemdinni sem gerði vart við sig yfir hátíðirnar (því vissulega var enginn heima þegar fjölskylduboðunum lauk) að ég hefði kannski verið full kröfuhörð og það væru nú 2 strákar sem ég hafði gaman af að spjalla við á msn sem vildu endilega hitta mig svo því ekki bara að slá til.  

Sá sem var hvað mest spennandi fékk að hitta mig á Nýjársdag - hvorki meira né minna.   Skruppum í smá bíltúr og spjölluðum og ég sá að hann var ekki alveg strákurinn sem ég hafði talið hann vera og var bara engan veginn að heilla mig.

Sá seinni fékk að hitta mig eftir vinnu 2. janúar og þar sem ég tafðist aðeins í vinnunni þá bara ákvað ég að vera hetja og bjóða honum bara heim þar sem ég hafði reyndar takmarkaðan tíma.  Ég hafði spjallað við hann í síma svo ég þóttist nú aðeins vita við hverju var að búast.
Þegar ég legg bílnum fyrir utan heima þá bíður hann þar fyrir utan (flott mál að hann væri þetta spenntur) og er bara hinn myndarlegasti strákur, smart klæddur, gelað hár og ekki vitund feiminn.
Við setjumst inn í stofu með drykkjarföng og spjöllum og bara fullt af neistum á flugi.   Ég varð voðaleg sár yfir að hafa verið búin að plana kvöldið og var mikið að spá í að hringja og fresta heimsókninni þegar þessi elska segist þurfa að fara, hann eigi að vera kominn út í bæ sjálfur eftir skamma stund því annars verði konan hans bara fúl.  

Ef þetta er það sem markaðurinn þarna úti bíður uppá þá verð ég aldrei aftur tilbúin í karlmenn ....


GLEÐILEGT ÁR ..

.. elsku fjölskylda, vinir, bloggfélagar, vinnufélagar, kunningjar og þið hin líka Grin

Nú er búið að vinna og vinna og vinna og vinna milli hátíða svo ég hef engar fréttir að færa, ætla að leggjast bara í sófann og fara að fínpússa áramótaheitapakkann ...... sem endar samt sennilega eins og á hverju ári með að setja mér engin Tounge

 flugeldarNjótið kvöldsins þrátt fyrir veðrið og munið að taka vel á móti nýju ári ......


fyrst til að fá fréttirnar ...

... um væntanlega fjölgun í fjölskyldunni næsta sumar en það var bara af því ég opnaði jólakortið frá frænda snemma á Aðfangadagsmorgun.

Ég sem sagt er að verða afasystir og hlakka bara til þó mér finnist það samt merki þess að allavega 10 ár hafi bæst á mig bara með opnun eins korts.

Á Þorláksmessukvöld fór ég að kveðja stóra bróðir þar sem hann ákvað að eyða næstu vikum erlendis.  Fór að leyfa honum að opna pakkann sinn og var reyndar næstum því búin að rífa pakkann af honum þar sem hann stendur ekki í sömu sporum og hann gerði þegar ég keypti hana.   Hluti af gjöfinni var nefnilega bolur sem á stóð PIPARSVEINN en í millitíðinni er hann búinn að hitta konu sem ég gæti hvað best trúað að það yrði eitthvað úr.

Svo kom Aðfangadagsmorgun og ég gerði eins og ég hafði lofað sjálfri mér fyrir nokkru.  Ég vaknaði seint og hitaði mér kakó og náði í smákökuboxið mitt, fór með sængina fram í stofu og setti Miracle on 34th street í tækið.   
Kakóið var ekki gott og smákökurnar vildu ekki niður í morgunmatinn svo ég endaði með ristað brauð og mjólk en myndin var samt jafn sæt og alltaf.
Eftir myndina opnaði ég jólakortin og eins og ávalt fékk ég eitthvað af samviskubiti þar sem nokkur kort komu frá vinum og kunningjum sem ég hafði ekki sent til.   

Eftir þetta tók ég mig til og fór til stjúpunnar með pakkana hennar og fékk fullt af knúsi og kossum frá dömunum þar, og svo fór ég að ná í mömmu gömlu því okkur var boðið í mat til yngri stóra bróðurs og hans fjölskyldu.
Það er ekkert smá gaman að eyða Aðfangadegi þar sem börn eru því spennan yfir pökkunum er svo skemmtileg.   Hamagangurinn við að opna pakkana var reyndar aðeins of mikill þar sem við náðum að kveikja í jólapappírnum en það slapp allt vel enda heill einn einstaklingur sem brást rétt við og hljóp með pappírinn út á svalir í snjóinn meðan við hin bara pötuðum út í loftið og panikkuðum.   

Á jóladag fór ég svo og skautaði á bílnum mínum til mömmu og með hana upp í kirkjugarð sem er okkar hefð og svo heim til hennar að stækka borðstofuborðið og leggja á borð meðan hún kláraði að elda jólasteikina ofan í fjöldann.   Fjöldinn varð ekki sá sami og hin árin þar sem stóri bróðir er farinn til útlanda og börnin hans og tengdabörn komu heldur ekki í jólamatinn því færð var ekki góð og við vildum heldur bara fá þau síðar í heimsókn.  
En við vígðum loksins jólagjöfina hennar og það kannski bara vel viðeigandi að gera það á jólunum
Gjöfin var brilliant og svo fór jóladagskvöldið bara í frágang með henni og uppvask.   Sé að á næsta ári þarf að gefa henni uppþvottavél svo tiltektin verði ekki alltaf svona mikil vinna.

Dagurinn í dag er svo bara búinn að fara í ekki neitt alveg eins og hann átti að verða.  Verður erfitt að vakna til vinnu á morgun eftir heila viku í að sofa út og leika sér.

Vona að jólin ykkar hafi verið yndisleg líka.


það er uppreisn í mér ...

... því í gær tók ég fram jólatréð og skreytti Gasp
Þetta mátti aldrei fyrr en á Þorláksmessu í minni sambúð en ég bara var of forvitin að sjá hvernig litla sæta jólatréð mitt myndi koma út í litlu stofunni minni.  (bara flott að sjálfsögðu)

Annars átti ég yndislegan frídag í gær.  Vaknaði seint og gerði fátt markvert nema kannski það að kaupa handa sjálfri mér jólagjöf Kissing

Fékk næstum því 100% frið frá vinnunni, en þegar Fjármálastjórinn hringdi í mig úr borðsímanum mínum þá hugsaði ég aðeins of lengi um hver ætti eiginlega þetta númer (ég náttúrulega hringi aldrei í það) að ég gleymdi að ég væri að leggja í stæði á Laugaveginum og keyrði bara á eitt stórt kyrrstætt tré.   
Er að sjálfsögðu áhyggjufull hvort það hafi nokkuð fengið lost, klappaði því aðeins þegar ég fór út úr bílnum og það sá ekki mikið á því.   Mesta lagi að það verði smá mar, en ég mun kíkja reglulega í bæinn að heimsækja það fram á vorið til að tryggja að það laufgist á ný.

En best að fara að koma sér í sturtuna þennan daginn og fara á meira flakk, eyða meiri peningum eða hvað eina sem manni dettur í hug að gera í jólafríi Tounge

Njótið ykkar í dag.


hvar er réttlætið ...

Þarna kemur að máli sem ég þekki dálítið enda hef ég gengið í gegnum nokkrar tæknifrjóvganir sökum ófrjósemi vegna "sjúkdóms" sem nefnist Fjölblaðraheilkenni á eggjastokkum,  en það vill svo til að hluti af einkennum "sjúkdómsins" er hæg brennsla og fitusöfnun á búk en ekki útlimum.

Eftir að hafa farið í gegnum 3 tæknifrjóvganir þar sem ein heppnaðist og ég fékk að njóta þess í 11 vikur að heita barnshafandi áður en fósturlát varð, þá voru þessar reglur settar upp og læknirinn hefði ekki getað sagt mér neitt sem hefði haft eins slæm áhrif á geðheilsuna mína því hann sagði mér einnig að það væri mun erfiðara fyrir konur með þennan sjúkdóm að losa sig við aukakílóin vegna þess hve brennslan er hæg.

Það er sárt að vera dæmdur til að lifa án þess að eiga barn vegna líkamsbyggingar og tala nú ekki um þegar horft er á uppeldi (eða réttara sagt skort þar á) sumra foreldra sem geta hrúgað niður börnum óáreitt.

Að lokum þá var einn punktur svo enn sem fór öfugur ofan í mig í hvert sinn sem ég borgaði fyrir meðferð og það var að á öðrum stað á spítalanum fóru konur frítt og fengu fóstureyðingu og ég þekki til 2ja kvenna sem hafa sagt hreint út að þær nenni ekki að nota getnaðarvarnir, fóstureyðing sé ekkert mál.   
Hvar er réttlætið í þessum heimi ....

 


mbl.is Feitar fá ekki tæknifrjóvgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

komin í jólafrí

eftir mikla vinnutörn hef ég ákveðið að taka mér langt jólafrí Joyful

Kom heim núna um 18 í kvöld alveg búin að gera helling síðustu 3 daga og bara hamingjusöm með útkomuna.  
Ætla mér að eiga nokkra daga bara í að gera ekkert áður en jólin koma því svo verður action eftir jólin í vinnunni og best að vera búin að keyra niður stressstigið áður en að því kemur.

Set stefnuna á að vakna seint á morgun og fara svo bara á eitthvað flakk í rólegheitunum og kaupa síðustu jólagjöfina og jafnvel sjá hvort ég finni engil á toppinn á jólatrénu.

Annars er ég aðallega að bíða eftir aðfangadagsmorgni þar sem stefnan verður á að skríða fram úr seint og horfa út um gluggann minn á fallega jólasnjókomu meðan ég hita mér kakó og fá mér smákökur og setjast svo í sófann með sængina mína og setja Miracle on 34th street í tækið og njóta þess að horfa á þessa fallegu mynd.

Vona að þið hin farið ekki með ykkur í jólastressi næstu daga Kissing 

ps Berglind, mig vantar leyniorðið þitt ef þú kemur og lest þetta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband