mæðgnakvöld í gær

Fékk 2 sett af mæðgum til mín í mat í gærkvöldi og átti frábæra stund með þeim.
Þetta var stjúpan mín og mamma hennar, móðursystir og frænka.

Umræðurnar fóru í hinar ýmsu áttir við matarborðið og það var ekki síst talað um hvað við ættum sérstakt samband allar því þetta gerist held ég ekki á mörgum heimilum að sambandið haldist við barnsmóður fyrrverandi makans hvað þá að það teygi sig svo yfir til hennar nánustu.
Stjúpan varð líka voðalega hissa þegar hún komst að því núna að ég hafði séð fæðinguna hennar á vídeói því pabbi hennar var að tjá henni að hann hefði aldrei séð myndbandið - sem reyndar er ekki rétt hjá honum.  
Ég rifjaði líka upp fyrir hana hvernig það var þegar við sóttum hana í fyrsta sinn og bæði hún og mamma hennar voru að heyra í fyrsta sinn hvernig sá sólahringur sem við höfðum hana þá hafði gengið, en litla skinnið grét og grét þegar heim kom og pabbinn flúði bara út en svo kíkti gamlan mín í heimsókn, tók hana úr fanginu á mér og daman þagnaði strax.   
Það hefur líka alltaf verið sérstakt samband milli stjúpunnar og "ömmu hennar"

Eftir matinn settust dömurnar niður og fóru að horfa á dvd en við eldri stelpurnar sátum áfram við borðstofuborðið og spjölluðum um daginn og veginn.
Enn og aftur fór umræðan út í hvar einhleypir karlmenn halda sig eiginlega því þær eins og ég kynnast bara lofuðum mönnum.  
Ekki að þeir séu allir að reyna eitthvað en allt of margir þeirra segja það ekki vandamál í þeirra augum þó þeir séu ekki einhleypir.
Held bara að málið sé að verða það að stofna allsherjar singlesklúbb með vinum og vinkonum sem taka svo með sér vini og vinkonur og þá kannski kemur nýtt blóð inn í hópinn sem gaman gæti verið að kynnast betur.


Draugagangurinn

Ég vinn á frekar afskekktum stað í Reykjavíkinni og eitthvað hefur verið talað um draugagang í húsnæðinu en ég hef svosem ekki mikið orðið vör við hann, kannski af því ég reyni að kenna gömlum pípulögnum og opnum gluggum um óhljóðin sem heyrast þegar ég er ein í húsinu eða einfaldlega ég búin að sannfæra mig um að kalda klappið sem ég fékk á kollinn í mötuneytinu hafi verið eindæmi.
Hef reyndar komið að draugunum þar sem þau/þeir/þær ætluðu að eiga rómó kvöld í mötuneytinu því eitt skipti þegar ég kom þangað að bera inn veitingar fyrir samkvæmi á laugardagskvöldi þá logaði á kertum á borðinu og enginn í húsnæðinu.

Veðurofsinn vakti mig snemma í morgun og þar sem ætlaði snemma heim þá ákvað ég að mæta bara extra snemma og klára daginn með stæl.    Æddi í sturtuna og hljóp út í bíl, keyrði með rúðuþurrkurnar á fullu og söng hástöfum með útvarpinu.
Þegar ég keyrði svo að vinnustaðnum fór að fara um mig þegar ég sá að öll ljós voru úti í nágrenninu en samt var smá skímu að sjá innan úr húsnæðinu.
Var ég enn að koma að skemmtun hjá draugunum? 
Hverslags partýljón eru þetta sem hafa búið um sig þarna eftir andlát sitt?
Ég kíkti í kringum mig í bílnum, að vandræðast með hvaða vopn myndu duga til að leysa upp draugafögnuð  Woundering   Bý nú einu sinni í partýblokk svo væri ekki eftir mér að vinna á partýstað líka?

Endaði þó með að fara tómhent að útidyrahurðinni, tók nett í handfangið en hún reyndist þá ólæst og þegar inn kom biðu 3 vinnufélagar sem einnig höfðu vaknað óvenjusnemma og ætt af stað til vinnu. 
Þar sem engin vasaljós fundust höfðu þau kveikt á kertum og sátu bara í rólegheitum að spjalla.

Dagurinn endaði reyndar bara sem rólyndisdagur og ég fór snemma til að ná mér í jólaklippinguna svo næst þegar ég verð vör við draugana þá allavega lít ég vel út Grin

 


ég er glanspía ...

Nei var ekki að láta mér vaxa sjálfsálit heldur var ég út í búð áðan og fjárfesti í nýju jólaskrauti þar sem gamla skrautið mitt er ekki að finnast og endaði ég á að kaupa glimmer blóm, glimmer greinar og glimmer laufblöð og var að setja saman í vasa og gera fallega skreytingu úr.  
Skreytingin er ofboðslega falleg en núna er ég og öll íbúðin mín eins og glansmynd og það er með eindæmum skemmtilegt að ná glimmer af sjálfum sér Crying 

Síðustu jól hef ég verið í vandræðum með að kaupa ekki eitt af öllu sem ég sé í búðunum en núna fyrst mér finnst mig vanta svona mikið til að gera fínt hjá mér þá náttúrulega sé ég ekkert.
Farin í verkfall núna hvað jólaskrautskaup varðar, svo jólin verða nett hjá mér þetta árið, en tréð bjargar þessu nú þegar það fer upp.

Vona að ykkur sé að ganga vel í jólaundirbúningnum, allavega er ég að verða búin að skreyta, búin að kaupa gjafirnar og búin að senda gjöfina út og jólakortin öll farin í póstinn. 
Næstu helgi verður allt klárað og skreytt hjá gömlunni og gott ef maður hrærir ekki í eins og eina eða tvær sortir af smákökum.


söng með Páli Rósinkranz og það skammaði mig enginn ...

... kannski var því um að kenna að ég var á jólatónleikum Hvítasunnusafnaðarins og það heyrði enginn í mér fyrir kórnum Whistling  en allavega - núna hef ég upplifað að syngja með einum af mínum uppáhalds söngvurum.

Vinkona mín lét mig vita á mánudag að hún hefði keypt fyrir okkur miða á jólatónleikana og þar sem ég er enn að læra að njóta bara stundarinnar þá auðvitað fagnaði ég þessu tækifæri til að prufa eitthvað nýtt í jólaundirbúningnum.

Fljótlega eftir að kórinn og hljómsveit voru komin upp á svið þá byrjaði gæsahúðin. 
Held hreint út sagt að hún hafi bara komið fram áður en þau byrjuðu að syngja og rosalega var gaman að heyra að það var búið að íslenska texta á mörgum þekktum erlendum jólalögum.  
Það eru alltaf einhverjir gestasöngvarar sem mæta til þeirra og það stóðu sig allir vel (ætla ekki að kjafta öllu fyrir þá sem eiga eftir að mæta) en Páll Rósinkranz stóð uppúr hvað mig varðar enda hef ég alltaf elskað hann, bæði í Jet Black Joe og eins núna eftir að hann hóf sólóferilinn.

Allir sem hafa farið vita að þetta er snilldarstund sem maður upplifir þarna hjá þeim og þið hin sem hafið bara séð þau í sjónvarpinu á jólunum, munið að ári að mæta á svæðið. 
Þið sem hvorugt hafið gert  -  stillið á RÚV á Aðfangadagskvöld og sjáið þá, eða Jóladag þegar tónleikarnir verða endursýndir

Þessir tónleikar verða framvegins árlegur viðburður hjá mér og hver veit nema maður kanni þau betur enda gospelsöngur bara frábær tjáning.


gersemirnir

Það er ekki lítið sem ég hlakka til að eiga jól heima hjá mömmu þetta árið.
Nú er ekki bara búið að mála og parketleggja heldur er búið að setja nýja borðstofusettið saman og koma því fyrir, snúa stofunni alveg við og setja myndir upp og fínpússa styttur og smádót.
Allt annað heimili Grin

Það var líka voðalega gaman að fara í gegnum skápa og skúffur hjá gömlunni minni því þar var svo margt skemmtilegt að finna sem enginn mundi lengur eftir.
Við systkinin skiptum einhverju á milli okkar sem mömmu var sama um en við vildum eiga og ég fékk meðal annars rosalega flotta mynd af pabba mínum sem tekin var 1970 á leið út úr flugvél í jakkafötum með sólgleraugu og bara reffilegur kallinn.  
Kallinn átti líka 3 vasapela og við skiptum þeim á milli okkar systkinin og vildi svo vel til að minn var sá eini sem var merktur honum og hann hefur nú fengið heiðurssess í glerskápnum mínum.

Fleira smádót sem ég átti fékk að fljóta með heim til mín, s.s minningabók úr barnaskólanum, fyrsta hraðasektin mín, skýrslan síðan ég keyrði aftan á einn af flottustu söngvurunum okkar, ljósmyndir, nornaskikkja og síðast en ekki síst fannst "vúddúprikið" mitt - Vilma þú manst eftir því, ekki satt?


jólahreingerning búin á fyrsta heimilinu ...

Vá hvað ég var löt í gær.
Gjörsamlega gerði ekki neitt fyrr en að ganga 11 í gærkvöldi en þá tók ég mig til og setti aðventuljósið í eldhúsgluggann og fannst voðalega notalegt að koma framúr í morgun í daufu birtuna frá því.  
Svaf samt af mér kirkjuklukkurnar og það er nú ekki oft sem það hefur gerst.

Í dag skal ég verða duglegri og fara með grenið út á svalir hérna hjá mér og hjá múttu svona til að byrja jólaskreytingu ársins, en er ekki viss um að nenna neinu meiru en því svosem.

Tók mig svo til í morgun og þreif heimilið hans Alfreðs svo það er allt rosalega fínt hjá fiskinum.  Næst er það að gera þrif á mínu heimili sem er aðeins stærra og svo næstu helgi þá kemur að heimilinu hennar mömmu sem er svo aðeins stærra en mitt.

Njótið fyrsta sunnudags í aðventunni Kissing


heim - rúm - sofa

var það eina sem ég gat hugsað þegar ég skreið heim úr vinnunni kl 19 en þurfti auðvitað að koma við á nokkrum stöðum og sit svo við tölvuna hin hressasta núna.

Var að stressast í laununum til að verða 1 í nótt og var svo mætt aftur fyrir 7 í morgun og var bara á fullu í allan dag að vinna launin.   Hét því reyndar líka áðan að vinna ekki aftur að innleiðingu tölvukerfis, en verð víst að taka það strax til baka þar sem ég verð að vinna í næstu innleiðingu í des, vona bara að hún gangi betur.   Vilma treysti á vinnufélagana þína til að standa sig betur Joyful

Morgundaginn skal taka með trompi og njóta hans annaðhvort við jólainnkaup eða við þrif og upphaf jólaskreytinga.


ekki sú óstressaðasta ...

jæja - nú verð ég að taka enn og aftur ofan fyrir tölvufólki, forriturum og hvað þið öll kallist.

Það er verið að skipta um launakerfi í vinnunni hjá mér og núna 3 sólahringum áður en komið er að útborgun er kerfið ekki farið að virka en vinirnir mínir í tölvufyrirtækinu eru salla róleg og skilja ekkert hvað ég er að stressast.  
Sat í dag og gerði 3 tilraunir til að reikna út einn (já bara einn) starfsmann og ekkert gekk. 
Þegar ég fór heim kl 18 var enn ekkert farið að virka svo sennilega erum við að tala um eina af mínum síðustu færslum hér, því hvað verði gert við launafulltrúan á föstudag ef ekki verður greitt út er ekki hægt að setja niður á blað Shocking
Jah, jú kannski það sé alveg hægt að segja hér frá samúðarfullum kveðjum og knúsum sem ég fengi hehehe

En í kvöld fékk ég bara vinkonu í heimsókn til að elda fyrir mig (snillingur ég að hafa slasað mig) og við áttum bara hið fínasta kvöld.  
En ég áttaði mig á einu þegar ég var að ræða við hana um daginn og veginn að ég þarf að taka smá pásu á strákabindindinu mínu og blikka einhvern hingað yfir til að setja út grenið og jólaseríuna sem ég var að fjárfesta í því ekki get ég það með einni og hálfri hendi.   Eins þarf ég að redda mér heimilisaðstoð á næstu dögum ef ég ekki fer að verða kjarkaðri og nota höndina meira.

En kveð í bili, best að fara snemma í háttinn svo ég verði hress á morgun ...


kósýhelgi ..

Yndislegur sunnudagsmorgun sem tók á móti mér þegar kirkjuklukkurnar vöktu mig kl 10:30 í morgun.   Hef ekki sofið svona lengi í margar vikur.
Settist fram og skellti Marco Antonio Solis á "fóninn" og fékk mér morgunmat sem ég snæddi meðan ég horfði  á snjókomuna fyrir utan gluggann minn.
Held hreint út sagt að ég skreppi á eftir að kaupa grenið og jólaseríuna á svalirnar mínar og kannski læði einhverju meiru af jólaskrauti í körfuna og byrji að safna fyrir aðventuna.

Er búin að eiga með eindæmum rólega og notalega helgi. 
Afslöppun og sjónvarpsgláp á föstudagskvöld og svo skrapp ég í Keflavíkina í heimsókn í gær og enduðum með að fara á Langbest að fá okkur kjúklingasalat.  Þetta salat er toppurinn af tilverunni, voðalega einfalt en agalega gott og nú er bara að taka fram matreiðsluhæfileikana og búa sér til svona salat og mæta með í vinnuna og gera hina græna úr öfund.  
Í gærkvöldi þá skrapp ég svo bara á rúntinn með félaga og eftir það tók ég mynd á skjánum sem ég hafði ekki séð í tæp 20 ár (Can't buy me love) og hafði bara gaman af og þegar henni lauk þá skreið ég upp í rúm með bókina mína og sofnaði með hana á nefinu.

Nú er bara að byrja daginn og koma sér eitthvað út þar sem ég er ekki að hafa nennuna í að þrífa hérna heima og þykist ekki nægilega góð í hendinni til að geta farið að skúra.
Stjúpukvöld í kvöld svo kvöldið verður líka bara rólegt og kósý ... ein kósýhelgi bara.


hvar er trúin ...

Jæja fékk aldeilis að kynnast því í dag að fólkið mitt í vinnunni hefur ekki mikla trú á mér Gasp

Daginn eftir óhappið sem kostaði skurðina í lófann ákvað ég að hætta að drekka tímabundið og hef alveg haldið það, nema hvað ég gleymdi mér aðeins í freyðivínsboði síðastliðinn fimmtudag og fékk mér eitt glas til að skála með vinnufélögum.
Fólk verður að gera sér grein fyrir að það tekur heilann tíma að læra svona.

Á mánudaginn ákvað ég svo líka að hætta að spá í strákana og gat svo ekki svarað símanum né msn-inu hjá mér þar sem ég var upptekin við að tala við flotta leigjandann (jú Simmý hann er flottur þó þú sjáir það ekki) og svo þegar ég hringdi til baka eftir að hann fór þá þurfti ég að kveðja skyndilega þegar fallegi pólverjinn kom að spjalla við mig.

nunnan

Núna er farið að kalla mig Systur Rebbý, en ekki vegna þess að þeim þyki ég standa mig svo vel í að halda bindindin mín, heldur því þau hafa enga trú á mér.

Ekkert vín um helgina og best að binda fyrir augun svo ég sjái enga stráka sem ég óvart dett í að daðra við, held mig innan dyra og vona bara að engir strákar hringi í mig ....

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband