Færsluflokkur: Bloggar

... "vinna" í kvöld ...

... var bent á það í vinnunni í gær að nú hefði ég ótrúlega góða afsökun fyrir því að djamma í framtíðinni ..... ég væri einfaldlega á fullu að safna efni fyrir bloggið Tounge

þannig að, elsku vinir, bara í þjónustu við ykkur þá ætla ég að skreppa á lífið í kvöld og vonast til þess að með hugarorkunni einni saman náið þið að vinna á heilsubresti þeim sem ég verð fyrir á morgun ....

 


ólíkur húmor ...

... mikið agalega getur verið erfitt að heilla fólk sem er ekki á sömu bylgjulengd húmorslega séð.

Hitti þennan myndarlega kana á balli í byrjun árs og spjallaði aðeins við hann.  Vill svo til að ég var aðeins í glasi svo ég mundi nú ekki eftir allri spennunni sem ég sýndi víst í hans garð þegar ég fór að rabba við hann tveimur dögum síðar á netinu (já já enn eitt netspjallið) og vildi þar að leiðandi ekki gefa honum upp símanúmerið mitt strax né drífa mig niður í bæ að hitta hann.   Eitthvað kólnaði þá í gaurnum og fór svo að lokum að við hættum að spjalla.
Nú 3 mánuðum síðar hitti ég hann aftur á balli og ætlaði að rabba við hann, en komst bara ekki að honum fyrir öðrum áhugasömum stúlkum/konum  svo ég rétt kinkaði kolli og hélt svo áfram mína leið.
Helgina á eftir sá ég hann aftur og þótti bara mikið til koma að sjá hann svona 2 helgar í röð og náði í þetta skiptið að tala við hann.  Ég náttúrulega byrjaði á að skamma hann fyrir að hafa hent mér út af msn hjá sér og fékk þá að vita að við höfðum verið á sömu böllunum aðra hverja helgi eða svo alla þessa 3 mánuði, en ég bara verið svona dónaleg að vilja ekki heilsa ... úbbss
Það vill svo til að í "gamla" daga þá var ég voðalega mannglögg manneskja og kannski um of því ég mundi eftir öllum sem höfðu staðið nálægt mér, en eftir veikindi þar sem heilinn á mér var í aðalhlutverki þá bara get ég ekki munað neitt stundinni lengur og hafa margir þurft að kynna sig fyrir mér síðustu árin.

Nema hvað þá reyni ég að útskýra þetta fyrir honum, baðst afsökunar á dónaskapnum í mér og við skiptumst aftur á msn adressum (hvað skal kalla þetta á góðri íslensku) og byrjum aftur að spjalla saman í vikunni.

Aftur tókst mér að klúðra þessum málum en í þetta skiptið var ég svo vitlaus að spyrja hvað hann starfaði því ég bara gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvort við höfðum eitthvað rætt það.   Hann fer flóknustu leið í svarið og lýsir starfinu sínu frekar en bara segja mér hvað hann gerir og svona hljóðaði lýsingin "I work around famous and not so famous people that smell of Champagne and are holding beer money"   veit ekki með ykkur en fyrir mér hljómaði þetta eins og starfsmaður á stripbúllu (hvar annarsstaðar er fólk með kampavín á hverjum degi) og með því að spyrja að því þá móðgaðist hann svo svakalega að hann þakkaði mér fyrir kynnin, bað mig vel að lifa og vonaðist til að sjá mig ekki meir  Blush   ég reyndi að klóra í bakkann og segja honum að það væru nú sem betur fer ekki allar konur jafn bilaðar og ég svo við gætum nú hlegið að þessu næstu mánuðina meðan ég næði að heilla hann og fá hann yfir á mitt band, en eina sem ég fékk þar til baka var  ....... ÓLÍKLEGT ....


... ljósmyndaopið ...

Skrapp í bíltúr með vini, vina og átti von á fínast spjalli við þennan ekkert svo spennó að sjá gaur, en hey - ekki er maður sjálfur allra útlitslega séð svo því ekki gefa manninum séns.

Allavega, við æddum af stað Hafravatnshring síðkvölds í fallegu veðri, lögðum bílum og skruppum í smá göngutúr og náðum að sjá appelsínugula sólina setjast .... veit, það hljómar voðalega rómó, en þegar verið er að kenna manni á ljósop í einhverri myndavél sem kostaði 290þús þá dettur rómansinn alveg niður.
Allavega í göngutúrnum tókum við fullt af myndum, tré, flugur, grjót og hvað sem hægt var að nýta til að munda linsuna á vélinni, en annaðhvort er ég svona illa sjáandi eða allar myndirnar voru úr fókus. 

Hann var voðalega stoltur af vélinni og bara gott fyrir hann að hafa þetta áhugamál, en hann toppaði allt þegar hann spurði í lok stefnumótsins  ...... hvernig líst þér svo á gripinn .....  og var því miður ekki að spá þá í myndavélina heldur sjálfan sig Gasp


.... ekki alltaf gott að hafa gott veður ....

... skrapp í göngutúr í grasagarðinn í laugardalnum með manni sem ég var málkunnug en hafði ekki hitt áður.

Fínasta veður úti, hiti og sól og meira að segja svo gott veður að eftir smá stund á röltinu fórum við að fækka fötum .... nei nei, ekkert ósiðsamlegt sko .....  bara úr yfirhöfnunum (you and your dirty litle minds)

Eftir rölt í gegnum garðinn þar sem löngum tíma var eytt í að skoða hvað plönturnar hétu þá fórum við yfir að gömlu laugunum.  Þar var eldri maður að gefa öndum brauð og þar sem deitinu fannst svo gaman að sjá endurnar koma til gamla mansins sem sat hinn rólegasti á bekk þá ákvað hann að sýna hvað persónutöfrar hans væru miklir þ.e. sýna mér að þeir virkuðu líka á endurnar.  
Nema hvað, það var blaut moldin við pollinn og deitið flaug á hausinn í drullusvaðið ... ferlega smekklegur með brúnan rassinn bað hann um að við röltum af stað í átt að bílunum og hin illa innrætta ég hló að þessari elsku alla leiðina til baka (þrátt fyrir að hafa sett jakkann sinn um sig miðjan og ná þannig að fela blettinn fyrir öllum hinum blómaunnendunum) 

Þegar við kvöddumst bað ég hann um að skammast sín ekki, fólk gæti lent í svo mörgu á fyrsta deiti  og hafði þá greinilega ekki litið í spegill því eyelinerinn minn hafði bráðnað í sólinni og lá niður á miðjar kynnar ....


litli bóndadurgurinn ....

... á einn "félaga" sem ég bara verð að segja frá hérna inni, annars verður hann bara móðgaður.

Vill svo til að stór hluti vinnu minnar felst í að tala í síma (hentar daðurdrós vel) nema hvað ég hitti á strák fyrir nokkrum mánuðum sem næstum því kom mér út af laginu.   Hann er snilldar daðrari og fer svo nálægt línunni að ég næstum því elska að heyra í honum.  
Hann hefur samt farið dálítið ílla með mig á köflum þar sem hann nær alltaf í gegnum stelpurnar á skiptiborðinu með því að segja þeim að þetta sé daðurkóngurinn, maður sem vilji ræða kynlíf við mig, eða nýjasta fórnarlambið hennar Rebbý svo þó ég sé með mig merkta þannig að ég taki ekki síma í augnablikinu þá bara þora þessar elskur ekki að segja nei við hann.
Það versta kannski er að þegar hann hringir orðið þá þarf ég að koma fram á skiptiborð og gefa skýrslu um hvað mér stendur nú til boða því þær fá eitthvað voðalega skrítið út úr þessum samtölum sem þær þó aldrei verða vitni að.
Allavega, daðurkóngurinn minn, og skiptiborðsstelpur .... er ekki á leiðinni í heita pottinn hjá honum alveg strax, er enn ekki búin að komast að skóstærðinni hans og heita stefnumótið okkar í útlöndum verður að bíða ......


... ekki svoleiðis strákur ...

... villtist eftir ball niður á Dubliners að skoða hina síðustu sénsana með nokkrum félögum.   Skrepp á salernið en þegar ég kem til baka sé ég ekki fólkið mitt svo ég tek upp símann minn og ætla að hringja í þau og sjá hvar þau eru. 

Allt í einu er síminn minn tekinn af mér, honum lokað og sagt "engar áhyggjur, þarft ekki að leita lengur að mér"   ég lít upp og sé þennan líka flotta strák, flott dressaður í svört jakkaföt, hvíta skyrtu og með hvítt bindi.   Hann kynnir sig (skulum kalla hann herra flottan) og býður mér í glas, en þar sem klukkan var rúmlega 4 þá var ég ekki að hafa áhugann á því og segi hann aðeins of seinan, ég sé á leiðinni heim. 

Herra flottur var líka herramaður því hann býðst til að fylgja mér í staðin út í leigubíl sem ég samþykki.  Byrja þó á því þegar út í vorið var komið að taka í hendurnar á honum og skoða hvort ég sæi hring þar eða allavega hringafar - hann hlær og spyr hvað ég sé að spá svo ég segi honum bara hreint út að ég sé að leita eftir giftingahringnum, svona flottir strákar eru einfaldlega ekki á lausu, hvað þá að spjalla við mig.     
Honum þótti þetta agalega skondið og segir einfaldlega "ég er ekki svoleiðis strákur"

Við förum að rölta um í leit að leigubíl og spjöllum saman á meðan, störf okkar, fjölskyldu, ástæðu skilnaðarins hjá mér og hann segir mér frá barnsmóður sinni og áttum okkur svo á því 4 tímum síðar að kannski höfum við gleymt að leita eftir leigubílnum á labbinu.
Hann var agalegur herramaður allan tímann, leiddi mig um bæinn og ég get svo svarið fyrir það ef það var ekki að myndast bleikt ský undir fótum mér ... hvernig stóð á því að ég varð svona heppin ... ég þyrfti að muna að þakka félögunum fyrir að stinga mig af .... væri bara komin með spenntan mann upp á arminn (eða ég komin upp á arminn hjá honum) og það var bara enn engan galla að finna á honum ... alveg þangað til hann sagði - hér eru bílar, takt þú þennan ég verð að fara í hinn og koma mér heim áður en konan mín vaknar.

Andlit mitt varð eitt spurningamerki og ég spyr hann út í þessa athugasemd fyrr um kvöldið að hann væri ekki svoleiðis strákur þegar ég leitaði eftir hringnum, svarið var snilld ......  ég geng bara aldrei með skartgripi  .......


litla sálin ...

... það er greinilega misjafnt hversu kaldir karlmennirnir eru sem flakka um þarna úti.

Ég var eitt sinn búin að spjalla nokkrum sinnum við ungan mann í auglýsingabransanum.  Höfðum spjallað um allt milli himins og jarðar í nokkrar vikur, fara í göngutúra og kunnum bara ágætlega við hvort annað.

Kvöld eitt skelli ég mér með vinkonu minni í bæinn á djammið en fannst hún full upptekin af því að sms-a einhvern meðan við sátum að skoða í kringum okkur strákana þannig að ég fer og spyr hana um sms-félagann.   Að sjálfsögðu fæ ég þá að heyra alla söguna um hann.  Myndarlegur, hress, skemmtilegur, sýndi syninum áhuga í máli og virtist bara hlakka til að kynnast honum líka.  Maður sem hafði prufað margt og gat frá ótrúlegustu hlutum sagt, var opinn og bara að því virtist alveg heiðarlegur strákur.    Að lokum nefnir hún nafnið hans og ég fer að hlægja, ég sé búin að vera að hitta strák sem heiti sama nafni, færum allavega ekki að ruglast á hvað vinirnir okkar hétu, þyrftum bara að muna eitt nafn.

Við förum að bera aðeins betur saman manninn bak við nafnið og þrátt fyrir að sumir hlutir pössuðu vel saman þá var annað sem við þekktum ekki frá okkar félaga, en það fór þó svo að lokum að við ákváðum að tékka á símanúmerinu, hvort það væri nokkuð það sama ..... og að sjálfsögðu var það svo.         Við vorum búnar að deita sama manninn.

Daginn eftir fórum við í nett púkastuð í þynnkunni og ákváðum að hringja í kauða og segja honum frá þessu frábæra kvöldi sem við höfðum átt með vinkonu okkar, nefndum nöfn hvor annarrar og staði og stundir sem áttu náttúrulega alveg saman.  

Nema hvað litla sálin sem hann var fór alveg í flækju, viðurkennir fyrir mér að hann gæti nú kannski alveg hafa þekkt hina konuna og skildi bara ekkert hvernig svona gat gerst.   Við værum nú ekki einu konurnar í Reykjavíkinni sem værum single, hversvegna þessar tvær sem hann væri að hitta þyrftu að þekkjast.   Well - að sjálfsögðu spilaði hann þessu upp í að þetta væri greinilega allt okkur stelpunum að kenna og svona til athugunar þá verðum við bara að átta okkur á því að Ísland er ekki stærra en svo að maður þekkir alltaf mann sem þekkir mann  (já þetta var speki) svo vertu viss um að deita bara einn/eina í einu .....


viltu mig virkilega ekki ....

... skrapp á ball fyrir nokkru og hitti þar mann úr fortíðinni (þó ekki minni).   Fyrrum kærasti mikillar vinkonu minnar síðan ég var 18 ára var þar og við spjölluðum helling, rifjuðum upp gamlar stundir og duttum svo óvart aðeins niður í daður.   Það skal tekið fram að daður er mitt líf og yndi svo þetta var kannski ekki svo mikið óvart, en þó ... maður á ekki að daðra við fyrrum kærasta vinkvenna sinna en tók þó sénsinn þar sem 18 ár voru síðan þau voru saman.   Eftir mikið spjall, smá daður og smá dans þá lauk ballinu og ég taldi óhætt að fá okkur einn bjór heima hjá mér áður en hann færi af stað heim til sín.  Þvílíkur sakleysingi sem ég stundum er Halo

Eftir að vera búin með hálfan bjór fær guttinn að nota salernið hjá mér og var það mjög sjálfsagt eins og fyrir alla sem hingað koma, ég heyri að hann sturtar niður, setur setuna niður (fékk prik þar), þvær sér um hendurnar og opnar dyrnar á ný ..... en .... svo kom enginn fram í stofu aftur.   Eftir að hafa beðið í smá stund þá fór ég að hafa áhyggjur af mann greyinu og kíkti fram á gang ... enginn þar, kíkti inn í eldhús .... enginn þar,  kíkti inn á baðherbergi .... enginn þar  og þá var eiginlega bara um svefnherbergið mitt að ræða.   Ég læddist inn að herbergi og kíkti inn og við mér blasti óborganleg sjón.   Lá ekki guttinn þar, hálf meðvitundarlaus af áfengisneyslu, nakinn að bíða eftir að ég kæmi svo hann gæti sýnt mér alla sína takta.   Ég bað hann að klæða sig, ég væri að hringja eftir bíl handa honum og það dugði til að ná smá sambandi við hann, hann reisti sig við og sagði "viltu mig virkilega ekki ......."


"Unglegi" fertugi

... jæja byrjum á "unglega" manninum sem ég hitti í vikunni.

Við vorum búin að spjalla aðeins í tölvunni (dæmigert nútíma fólk) og allt leit voðalega vel út, höfðum svipuð áhugamál og svipaðar skoðanir á soranum sem er í gangi á þeim síðum sem eru til þess gerðar að hjálpa einstaklingum eins og okkur að finna ekki bara HINN EINA RÉTTA framtíðar maka heldur alla réttu einstaklingana til að leika sér með meðan leitin ber árangur.  Allavega var núna kominn tími til að sjá hvort neistaflug yrði og æða í bæinn í smá göngutúr.

Rétt fyrir göngutúrinn segir herrann mér þó að hann vilji aðeins konur sem taki sig til og reyni allt sitt til að líta sem best út ... í stuttu máli sagt þá vita þeir sem mig þekkja að ég er svona maskari, hárfroða, tannburstun, í gallabuxurnar, bol og strigaskóna áður en hlaupið er út allt of sein í vinnuna svo þetta byrjaði ekki vel.  Fór samt af stað í gallabuxunum og ákvað að standa þétt á mínu, maður breytir sér jú ekki fyrir neinn,  æddi af stað niður í bæ og kom að mótstaðnum í fínu veðri þrátt fyrir að væru nokkrir dropar sem duttu úr skýjunum þarna fyrir ofan mig. 

Spennan eykst og svo kemur hlaupandi á móti mér maður í snjáðum gallabuxum með ljótan trefil um hálsinn og kallar "hæ Rebbý"  og mér bara brá.   Unglegi fertugi maðurinn sem ég beið svo eftir að hitta virðist hafa legið í dái síðustu 10 árin því það eru nokkur ár síðan hann varð fimmtugur.  
Við tökumst í hendur og sannfærum okkur um að þetta sé rétta fólkið að hittast en lítið varð úr göngutúrnum þar sem herrann þoldi ekki þessa 4 dropar á mínútu sem náðu að bleyta fína nýblásna hárið hjá honum svo það var ákveðið að renna sér í bíltúr í staðin.
Án þess að fara í gegnum það sem rætt var í bílnum þá allavega varð strax ljóst að við áttum ekki jafn mikla samleið og spjallið hafði sagt til um.     

Gerir fólk sér ekki grein fyrir því að þegar komið er að því að hittast þá sést fólk?    Ég bara spyr ...


upphafið ...

... eitthvað hefur verið um að vinir sem hafa heyrt af því hvernig mér gengur sem single kona hafi beðið mig um að setja stefnumótin mín og daðurtilraunir niður á blað því ég á eitthvað svo mikið af mislukkuðum tilraunum að baki.

Í kvöld ætla ég að fá mér eitthvað gott í gogginn og fá mér eitthvað gott í fljótandi formi með og punkta niður á blað hvað af stefnumótunum mínum hafa verið þannig í eðli sínu að gaman væri að segja frá þeim.

bless í bili


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband