Færsluflokkur: Bloggar
Var voðalega dugleg núna áðan og ákvað að þrífa glerskálina sem Alfreð litli ugglausi býr í.
Hef náttúrulega skipt út bolla og bolla af vatni svo það sé súrefni í skálinni, en núna fannst mér kominn tími á allsherjar hreingerningu hjá karlpeningnum á heimilinu.
Hann byrjaði að synda eins og vitlaus væri þegar ég flutti skálina úr stofunni í eldhúsið og svo þegar ég fór að reyna að veiða hann þá hélt ég að hann færi í gegnum glerið því hann fór á þvílíka ferðina. Vissi ekki að skálin væri nægilega stór fyrir svona hraða en svo varð hann svo hrifinn af glasinu sem hann fékk að búa í meðan skálin og sandurinn voru skoluð að hann reyndi meira að segja að synda í því tómu frekar en fara yfir.
Allavega, nú sé ég litla krílið miklu betur og hann virðist vera að jafna sig enda farinn að synda bara í rólegheitum, en mun fylgjast vel með honum næstu tímana (hve líf mitt hljómar spennó)
Vona að þið eigið gott fimmtudagskvöld.
Bloggar | 11.10.2007 | 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Einhver ykkar lásu hérna í sumar um 18 tíma deitið mitt. Það "samband" entist í nokkrar vikur og rétt eftir lok þess þá viðurkenndi hann fyrir mér að vera farinn að keyra um hverfið mitt mjög reglulega og versla í búðunum í kring í von um að sjá mér bregða fyrir.
Mér fannst þetta hálf óhugnanlegt, en lét sem ég heyrði þetta ekki og þar sem ég hef aldrei séð hann á flakki mínu þá ákvað ég að hann væri hættur þessu og þá búinn að jafna sig á þessu skoti (merkilegt þó að nokkur jafni sig á séns með mér)
Í sumar var ég líka að spjalla aðeins við ungann mann sem ég taldi vera dálítið feiminn, en eftir að hafa hitt hann þá sá ég að það vantaði bara nokkrar blaðsíður í kollinn á honum svo áhuginn varð enginn.
Núna í lok síðustu viku þegar ég taldi mig vera alveg orðið örugga þar sem hann hafði ekkert reynt að hafa samband í á annan mánuð þá kom til mín tölvupóstur og það í vinnuna þar sem hann fór að spyrja mig út í bílinn sem ég keyri.
Verð núna að viðurkenna að ég vona að hann hafi séð mig bara á rauðu ljósi einhversstaðar, allavega er ég ekki alveg að fíla það er hann er að keyra um hverfið mitt líka og hafi þannig séð hvernig bíl ég keyri.
Ætti ég að prufa að labba í fyrirtækin í kring og sjá hvort ég fái ekki afslátt fyrir að draga mennina í hverfið - hlýtur að hafa aukist veltan hjá þeim síðan ég flutti hingað .....
Bloggar | 8.10.2007 | 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
jæja kæru vinir, smá skýrsla frá mér eftir smá pásu
Það er búið að vera þræl mikið að gera hjá mér á öllum vígstöðvum, en núna sit ég heima á sunnudagskvöldi með ekkert í sjónvarpinu, horfandi á tölvuskjáinn og hlustandi á kirkjuklukkurnar slá .... heyrðu já .... af hverju er verið að hringja kirkjuklukkum á sunnudagskvöldi?
Á föstudagskvöld fór ég í matarboð með nokkrum yndislegum single konum. Þar voru samankomnar auk mín, mamma stjúpunnar minnar, móðursystir stjúpunnar og svo vinnufélagar móðursysturinnar. Það virðist engum þykja það merkilegt lengur að við skulum vera svona góðar vinkonur í dag, en það var meðal annars skálað fyrir skilnaðinum nokkrum sinnum því hann markaði mót þess að við vorum konur sem neyddumst til að þekkjast yfir í það að vera vinkonur.
Það var boðið upp á kjúklingavefjur með grænmeti og doritos þegar við mættum á svæðið enda nokkrar þeirra rétt að klára vinnudaginn en svo var þessi líka himneska humarsúpa sett á borð og aldeilis að við gátum borðað af henni. Takk fyrir mig Rannveig - snilldarkokkur
Þegar fram á miðnættið kom þá var hringt á leigubíl og stefnan tekin á Players þar sem Eiríkur Hauks og Jónsi voru að syngja Queen slagara og það var mikið dansað og mikið fíflast.
Á laugardag vaknaði ég bara hressust og skrapp í vinnuna fram á kvöldmat og fór svo í heimsókn til vinahjóna sem voru búin að hóa saman fjölskyldunni sinni + mér til að horfa á Kalda slóð saman, mikið af góðum veitingum og myndinni varpað upp á stórt tjald.
Hafði reyndar séð myndina áður, en fannst bara það gaman að henni að ég var alveg til í að sjá hana aftur.
Svo í dag varð ég aftur dugleg og fór að vinna en þegar það kom í ljós um 5 í dag að skúrurnar höfðu sett þjófavarnarkerfið á þrátt fyrir að ég væri að vinna þá fór allt í pat í kollinum á mér svo ég hringdi í múttu mína og sagði henni að ég væri að koma í snemmbúinn kvöldmat og gamlan mín var búin að setja kartöflurnar í pott og silunginn í ofninn þegar ég kom og fékk þarna þennan líka veislumat.
Nú er bara að bíða eftir að deyfa heilann með sjónvarpsglápi og byrja næstu vinnuviku af krafti.
Læt heyra í mér bráðlega aftur ...
Bloggar | 7.10.2007 | 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hef þjáðst af alvarlegri ritstíflu sem virðist ekki vera að lagast og það sem meira er hef þjáðst af lesstíflu líka því ég hef ekkert farið blogghringinn og lesið hvaða skemmtilegu/erfiðu hlutir hafa drifið á daga bloggfélaganna heldur.
Vona að þetta jafni sig þegar ég venst skammdeginu betur en það er bara svo kósý að hafa slökkt á tölvunni á kvöldin og kertaljós um allt.
Mæli með því að allir prufi, - eða kannski ekki - væri hættulegt ef þetta myndi reynast bráðsmitandi.
Bloggar | 30.9.2007 | 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
... jæja þá er þetta snilldarkvöld að baki.
Fór á árshátíð fyrirtækisins í gær og byrjuðum við stelpurnar í singlesklúbbnum reyndar á að hittast um 4 til að hjálpast eitthvað að við fataval, hárgreiðslu og förðun. Opnuðum okkur freyðivín til að skála fyrir félagsskapnum og enduðum í að blanda Mojito og mikið agalega er það góður drykkur þegar hann er rétt blandaður.
Nema hvað við merktum okkur vel og vorum allar með kórónur á hausnum svo að þegar við löbbuðum niður tröppurnar á Broadway þá fórum við ekki framhjá neinum. Við vorum reyndar 2 svo plataðar upp á svið þar sem voru framkvæmd töfrabrögð þar sem þeir náðu að stela brjóstahaldaranum af vinkonu minni og g-strengnum af mér - en allt að sjálfsögðu grín.
Við fundum okkur borð allar saman og það var með eindæmum að 2 næstu borð við okkur voru full af pólskum strákum og þótti þetta sætaval okkar dálítið gruggugt, en það skipti engu hversu nálægt þeir voru því þeir voru einu alvöru dansherrarnir sem höfðu eitthvað úthald á dansgólfinu svo maður komst ekki hjá því að eiga helling samskipti við þá.
Við fengum þennan líka rosalega góða mat. Humar og hörpuskel í forrétt, naut í aðalrétt, súkkulaðikaka í eftirrétt og svo kaffi og koníak til að toppa matinn.
Það var sýnd mynd þar sem gert var smá grín af nokkrum vinnufélögum og held að ég hafi bæði verið sátt og ekki svo sátt við að hafa ekki verið tekin fyrir þarna, en að myndinni lokinni þá komu þessar elskur mínar á svið og dönsuðu við YMCA og voru lang flottastir.
Við erum búin að hafa 3 æfingar fyrir þessa sýningu og sú fyrsta fór alfarið í að sjá hvort þeir gætu dillað sér eitthvað og að spá hvernig við vildum gera þetta.
Næsta var dansinn ákveðinn og við sáum að áfengið losaði um mjaðmirnar á þeim þar sem þeir voru að verða mikið flottir enda æft með bjór.
Þriðja æfingin var svo á Broadway þar sem þeir fengu að prufa að vera á sviðinu og nota lyftuna svo það var nú ekki leiðinlegt.
Að allri skemmtun lokinni þá var ætt upp á dansgólf og rosalega er ég þakklát fyrir að hafa verið á flatbotnaskóm þrátt fyrir að hafa verið á svona flottri skemmtun því ég dansaði allt kvöldið og ætlaði bara ekki að komast upp tröppurnar heima.
Takk fyrir frábært kvöld strákar og stelpur og makar ykkar allra
Bloggar | 23.9.2007 | 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég er með þeim forvitnustu manneskjum sem til eru í veröldinni, en voðalega er gaman að vera hinumegin við borðið og fá að halda einu skemmtiatriðinu á árshátíðinni leyndu fyrir vinnufélögunum.
Lenti í því að vera með puttana í skemmtiatriði sem sýna á næstu helgi og er búin að hlægja mikið, gráta helling (úr hlátri) og gott ef ég hef ekki verið að því komin nokkrum sinnum að missa í buxurnar því þetta eru svo miklir snillingar sem vinna að þessu saman.
Erum búin að leynimakkast helling og það hafa nokkrir orðið þess varir auk þess sem það hefur aðeins spurst út að það sé óvænt skemmtun væntanleg svo spennan í vinnunni er þó nokkur.
Lokaæfing var að klárast niðri á Broadway með allt í botni og nú hlakka ég bara til að sjá hvernig þetta fer á stóra kvöldinu, en allavega kom þetta rosalega vel út.
Elskulegu vinnufélagar mínir, hlakka til að sjá ykkur í sparifötunum og njótið skemmtunarinnar
Bloggar | 20.9.2007 | 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
jæja - nú er ég að gefast upp á sjálfri mér.
Það er að koma að árshátíð í vinnunni hjá mér og auðvitað erum við stelpurnar farnar að spá í hverju skuli vera.
Keypti mér síðbuxur og 2 toppa í London fyrir mánuði síðan og taldi mig nokkuð örugga um að þurfa ekki að fjárfesta meira fyrir stóru veisluna, hve einföld ég var....
Ég gat engan vegin ákveðið hvorn toppinn ætti að velja og sá svo að ég átti ekki skó til að vera í við síðbuxurnar svo ég skellti mér í bæinn um helgina og keypti mér voðalega fína flatbotna skó (veitir ekki af miðað við hvað ég ætla að dansa mikið) en svo þegar ég var í þeim hérna heima í gærkvöldi þá fór ég að spá og sá að buxurnar njóta sín ekki við flatbotna skó svo ég æddi af stað aftur núna í dag í bæinn og fór að kaupa mér skó.
Skrapp í búð og fann mér 3ja toppinn (til að flækja málin aðeins meira) en fékk svo að heyra það frá stjúpunni minni að við værum að leita að skóm svo ég fór og fann eina voðalega pena með hæl og þóttist hamingjusöm.
Valið stæði núna bara um 2 pör af skóm og 3 toppa við fínu buxurnar.
Nema hvað, skoðaði aðeins betur í kringum mig og fann svona líka fínan kjól og þrátt fyrir að ganga aldrei í kjól, né ganga í rauðum fötum þá endaði ég með rauðan og hvítan kjól í poka og þarf núna að pússa stígvélin til að geta notað hann og reyndar kaupa mér eitthvað að ofan við hann því hann er full fleginn á alla kanta.
Hvar ætli þetta endi hjá mér - verð að kalla vinkonurnar heim að skoða og spá og spekúlera eftir æfingu annað kvöld til að hjálpa mér að gera upp hug minn.
Svo náttúrulega verð ég að vera dugleg að fara út og nýta öll þessi föt, einhver með ......
Bloggar | 19.9.2007 | 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Varð eitthvað svo agalega löt eftir vinnu í dag og nennti engu hérna heima fyrir svo ég plataði vinkonu með mér á rúntinn.
Fórum og fengum okkur ís og keyrðum svo niður Laugaveginn að sjá hvort þar væri eitthvað spennandi að sjá. Þegar við komum að Skífunni þá ákvað ég að kíkja inn og sjá hvort nýi James Blunt diskurinn væri kominn í hús og auðvitað klikkaði Skífan ekki.
Sit núna hérna heima í rólegheitum að hlusta á þessa elsku.
Diskarnir eru ekki ósvipaðir þannig að ef ykkur fannst sá fyrri fínn þá getið þið vel hlustað á þennan með kertaljós í gluggum eða góða bók í hönd.
Bloggar | 18.9.2007 | 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
jæja - nú er ég alveg að verða búin að fá nóg í bili af ástarjátningum á netinu.
Fékk fyrir nokkrum mánuðum boð frá vinkonu um að skrá mig á Tagged og rámar eitthvað í að þetta hafi mest verið til þess gert að hún fengi skilaboð um hvenær vinir hennar og vandamenn ættu afmæli.
Allavega, ég skráði mig og setti mynd af mér inn og allt og hef svo bara alveg fengið frið vegna þessa, meira að segja á afmælisdeginum mínum hmmm
Nema hvað að núna eru afrískir prinsar alveg óðir í mig, þessa gullfallegu hvítu konu sem er nákvæmlega það sem þeir hafa beðið eftir allt sitt líf.
Ætla að leyfa ykkur að lesa dæmi frá einum, lauslega þýtt, en varúð gæti kostað vanlíðan:
Lífið er sem sólblóm sem springur út á fallegum sumardegi og himininn aldrei verið svo fagur áður því ástin er ekki plönuð í lífinu heldur eigum við sem urðum svo heppin að fá að kynnast henni að lifa fyrir hana. Ástin sem bjó í hjarta mínu hefur nú loks fundið áfangastað og er nú orðin ást okkar, mín og þín sem ert ný drottning hjarta míns....
Hvernig ætli skilaboðin yrðu ef ég myndi svara honum og hann vissi meira en bara fornafnið mitt
Fer að panta flug út nema ég nái einhverjum sem toppar þetta hérna heima ....
Bloggar | 17.9.2007 | 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
... aldeilis langt síðan ég bjó með karlkyns sambýlingi en verður maður ekki að gefa þessu séns á ný?
Tók stórt skref í dag þegar ég ákvað að framvegis yrði heimili mitt ekki eingöngu fyrir mig eða aðrar drottningar/prinsessur heldur hleypa hingað inn í sambúð með mér karlkyns veru.
Fyrsta máltíðin okkar meira að segja yfirstaðin, en það varð að vera tvíréttað þar sem mér þykir fæðan hans ekki girnileg.
Fór í Dýraríkið og keypti mér eitt stykki karlkyns bardagafisk, skál, blóm og sand og sit núna og læt hann trufla mig við skriftirnar því hann tekur sig svo vel út hérna í stofunni.
Finn nafn á hann á næstu dögum ...
Bloggar | 16.9.2007 | 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)