Hafið þið verið svo þreytt að þið bara getið ekki einu sinni kveikt á tölvunni?
Það er svo stutt í að mín þreyta sé orðin svona, enda búin að vera ógurleg keyrsla í vinnunni og einkalífinu síðasta hálfa árið eða svo og núna held ég bara að ég sé orðin batteríslaus.
Þegar ég kom heim úr vinnunni núna áðan náði ég ekki einu sinni alla leið inn í stofu til að setjast.
Frammi í anddyri tekur á móti mér stóll sem aldrei er notaður (nema undir farangurinn sem flýtur með manni inn og út) en í dag þá bara datt ég niður í hann og ætlaði ekki að komast upp úr honum aftur.
Var rétt fyrir heimförina að skoða dagatalið mitt og viti menn ég held að það séu svona 15 dagar út maí og júní sem er ekki búið að plana eitthvað skemmtilegt .... allt frá eurovisionheimsókn upp í matreiðslunámskeið, frá útilegu upp í matarboð og frá Lækjarbrekku upp í vinkonukvöld.
Það er ekki mikið eftir af þessari viku, en ég er í mat og eurovision á morgun, í matarboði á föstudagskvöldið, hádegismatarboði á laugardag og svo eurovisionkvöld og svo verður sofið og slappað af á sunnudag vonandi bara allan daginn.
Í næstu viku dett ég svo inn í síðustu launavinnsluna mína (svo bara kennsla eftir) sem kallar alltaf á aukavinnu og ég er með gesti á mánudagskvöld, jafnvel á leiðinni út að borða á þriðjudagskvöld, á matreiðslunámskeiði á miðvikudagskvöld og að hitta gamla vinnufélaga á fimmtudagskvöldinu, laus föstudagskvöldið en að fara út að borða á laugardagskvöldið. Aftur verður vonandi sunnudagur tekin í svefn og ró.
Hvar á ég að koma fyrir tíma til að hvílast af alvöru....
Athugasemdir
Ég er í besta fríi í heimi. Lá í sófanum fram að hádegi.. skreið þá uppí rúm og lagði mig til klukkan tvö. Og svo hvíla sig... mmmm.... verst að ég er eiginlega þreyttari en í gær
Vilma Kristín , 21.5.2008 kl. 18:50
Spáðu samt í hvað þú ert heppinn... þú átt fullt af vinum og félögum sem sækjast í að hitta þig. Það eru gæði sem eru ekki öllum gefin. Njóttu þess í botn að njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða.
Kolbrún Jónsdóttir, 21.5.2008 kl. 20:11
jamm svo þegar tími gefst til að hvíla sig, þá er maður upptjúnaður og nær ekki almennilegri hvíld! Vika lágmark í svefn og ekkert nema svefn......
Hrönn Sigurðardóttir, 21.5.2008 kl. 20:21
OMG ég varð svo þreytt á að lesa um allt þetta erfiði að ég varð að hvíla mig áður en ég hvittaði njóttu vel maður á aldrei of marga vini
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 23:43
Tek undir með Hrafnhildi. Ég varð bara þreytt við að lesa þetta Svei mér þá ég held að ég fari bara í rúmið eftir lesturinn
En svona í alvöru.. njóttu og hafðu gaman af þessu öllu. Það er einmitt dálítið svona skeið hjá mér núna en alls ekki svona bissí sko!! Reyndu samt að ganga ekki of nærri þér með félagslífinu. Finndu þér a.m.k. stundir til að slaka á inn á milli svo þú lendir nú ekki oft í þessu með stólinn í anddyrinu Heitt bað, sjálfsdekur (eins og þú lýstir um daginn) eða bara snemma í rúmið á þessum 15 "lausu" dögum gætu t.d. bjargaði miklu.
Best wishes
Ein-stök, 21.5.2008 kl. 23:57
Farðu bara vel með þig mín kæra. Þú þyrftir að taka þér 5 vikna sumarfrí og fara í sólina og slappa vel af og koma endurnærð til baka.
Jóna Björg (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 09:24
já ég er rík af vinum og hef alltaf verið það - eiginlega of rík stundum því mér hefur fylgt að vinna á stórum vinnustöðum og vera í fjölmennum skólum og engin leið verið fyrir mig að halda sambandi við alla sem hafa snert líf mitt (þó stutt sé enn)
Jóna, ég stefni sko á laaaangt sumarfrí í ágúst þegar allt verður komið í rétt form í vinnunni og nýi launafulltrúinn komin almennilega í starfið og stefnan er sko tekin á sólina
Ein - ég tek mér sko svona sjálfsdekursdag bráðlega, þegar ég var búin að rita þetta þá steinsofnaði ég yfir sjónvarpinu
Rebbý, 22.5.2008 kl. 10:09
Hmmmm ég hef sundum verið að spá í hver þessi Rebbý er sem kvittar hjá Berglindi og nú er ég búin að átta mig á því Gaman að lesa bloggið þitt gamla vinkona. Sendillinn í vinnunni hjá þér kom í vinnuna til mín um daginn og þá frétti ég að þið væruð að vinna saman. Þú ert alltaf jafn vinsæl meðal vinnufélaga skvís. Ég væri nú alveg til í að vinna með einni svona Rebbý í þessari vinnu sem ég er í núna
Hafðu það sem allra best.
Kv. Ólöf
Ólöf (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.