Já gott fólk, þessi helgi hefur aldeilis verið skemmtileg og nóg verið að gera.
Helgin byrjaði á því að fá stelpurnar í kjaftaklúbb á föstudagskvöldið.
Alltaf gaman að hitta þessar elskur og það var mikið spjallað um hin ýmsu málefni en einhverra hluta vegna var aftur farið í umræður um drauga, yfirnáttúrulega hluti og andlát okkar nánustu.
Merkilegt umræðuefni yfir veitingum og hvítvíninu.
Á laugardag var ég rétt komin á fætur þegar Vilma sótti mig og við æddum að stað til Snjóku og svo í Vídd að skoða flísar fyrir speglagerðina.
Dömurnar í Vídd aðstoðuðu okkur og fóru með okkur inn á lager að skoða hvað til væri og ég fann mér rosalega fallegar mósaík flísar 3 tegundir með gylltu í og ákvað bara að spreða enda vitað mál að þessi spegill yrði sá fallegasti í bænum.
Þegar búið var að kaupa flísar var ætt aftur heim til Snjóku og þar byrjað að klippa til flísamotturnar og taka úr þeim eina og eina flís þar sem hinir litirnir ættu að koma.
Þar sem ég er meyja þá var þetta ekki auðvelt verk því markið var að enginn gæti séð mynstur út úr þessu heldur átti þetta að vera algjört kaos, en verð reyndar að viðurkenna að hann endar bara tvílitur, hitt var of mikið fyrir mig.
Í miðri speglagerðinni hringdi síminn minn og þá var það Rósa, æskuvinkona mín, að athuga hvort ég væri búin að plana eitthvað um kvöldið því þeim hjónaleysunum hafði dottið í hug að grilla og vildu endilega bjóða mér með í góðan mat, gott spjall og yndislegan söng frá 2ja ára pæjunni þeirra.
Litla daman vildi endilega fá mig með upp þegar það var verið að hátta hana og söng þar fyrir mig Guttavísur og kunni allan textann. Hef svosem ekki alið upp mikið af börnum en þetta þótti mér með eindæmum sérstakt hjá henni svona ungri.
Um miðnætti dreif ég mig heim og fór að sofa enda var ég mætt á hádegi í dag að sækja Vilmu og krakkana og stefnan tekin á IKEA til að versla meira inn til að flísaleggja.
Eftir stóran hring, þar sem engum óþarfa var skellt í körfuna aldrei þessu vant, þá var aftur ætt til Snjóku og fúgan sett á spegilinn.
Meðan ég var að því og Vilma, heimasætan og villingurinn voru að setja flísar á minni spegla handa sér þá fór Snjóka fram í eldhús og bakaði handa okkur vöfflur og eftir að hafa setið að spjalli, borðandi vöfflurnar þá eiginlega varð allur vindur úr okkur svo við pökkuðum dótinu saman, tókum smá til eftir okkur og kvöddum.
Þegar ég kem frá Höfn ætla ég að klára spegilinn, setja afgangsflísar á myndaramma og hengja svo upp í herberginu svo það verði loksins fínt aftur. Bíð svo Vilmu og Snjóku að koma og skoða og held um leið daðurnámskeiðið mitt fyrir þær.
En núna er ég bara þreytt, þreyttari, þreyttust svo ég ætla að leggjast í sófann og horfa á Boston Legal og sjá hvort ég nái mér í enn fleiri nýja kæki.
Flokkur: Bloggar | 27.4.2008 | 21:13 (breytt kl. 21:17) | Facebook
Athugasemdir
Myndir?
Frábært að horfa á BL til að ná í kæki - þú ert flottust
Hrönn Sigurðardóttir, 27.4.2008 kl. 21:32
Takk fyrir helgina
Vilma Kristín , 27.4.2008 kl. 23:23
Hey, þú verður að kenna mér svona mósaík speglagerð. Mig vantar flottan spegil í stofuna
Jóna Björg (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 09:28
Takk fyrir helgina, þetta var rosalega gaman
Snjóka, 29.4.2008 kl. 08:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.