langa sumarbústaðarferðin mín

Jæja gott fólk það er eins gott að ég er búin að vera í jákvæðni átaki síðustu vikuna því ég er búin að eiga ótrúlega tilraun til að eiga góða helgi í bústaðnum Pinch

Gekk náttúrulega vel að pakka niður og versla á fimmtudaginn svo að ég þurfti bara að redda smá hlutum eftir vinnu á föstudag og fór svo og sótti Jónu vinkonu og æddum svo af stað með leiðarvísir að því hvernig ætti að finna bústaðinn.  

Ferðalagið gekk vel fyrir sig þrátt fyrir snjókomu á leiðinni og við vorum komnar upp að hverfinu bara rétt að verða 7 og fórum þá að leita aðeins betur að kofanum sem átti að vera svo vel merktur á ljósastaurum fyrir utan.
Merkingarnar höfðu svosem ekki mikið að segja þar sem flest útiljósin voru ekki í gangi sökum ónýtra pera, en þetta hafðist þó og við hentum öllu dótinu inn og ég fór út og þreif heita pottinn og lét svo renna í hann.

Við fengum okkur snæðing og byrjuðum svo að föndra en þegar líða fór á kvöldið var okkur farið að finnast frekar kalt í kofanum og tékkuðum á ofnunum. 
Viti menn, þeir voru ískaldir. 
Ég hringi alveg í panikki í þann sem hefur umsjón með bústaðnum og hann reynir að aðstoða mig eitthvað, en bendir mér svo á að hringja í annan vinnufélaga okkar þar sem sá væri búinn að vera svo mikið að vinna að bústaðnum.  
Sá lætur mig labba út í kofa og lýsa öllu sem fyrir mér var.  Jú það var kveikt á dælunni, jú jú bæði rauðu handföngin snéru rétt og jú jú það var þrýstingur og hvað allt þetta heitir svo hann bendir mér á að það lækki stundum í hitanum að hafa pottinn á fullu rennsli svo ég slekk á pottinum enda var hann orðinn vel heitur, myndi þola það í smá stund.  Í stuttu máli sagt þá horfðum við bara á eina bíómynd eftir þetta undir 2 sængum og fórum svo bara að sofa þessa kuldamartröð af okkur.

Morguninn eftir þegar ég loksins lagði í að fara undan sængunum mínum og í öll fötin sem ég hafði tekið með mér þá sé ég frammi að hitastigið inni í bústaðnum er komið niður í 10° svo ég dríf mig í skóna og ákveð að renna aðeins yfir þetta aftur.  
Fer út í skúr og horfi á teikningarnar og sé enn að bæði rauðu handföngin snúa upp og er að baksa þarna þegar vinkonan kemur út til mín og ákveður að kíkja á þetta með mér.   
Ég hef aldrei þóst gáfuð kona og sá það enn einu sinni að gáfur mínar eru takmarkaðar því hún bendir strax á að jú þó það sé á spjaldinu að bæði handföngin eigi að standa upp þá séu líka myndirnar af rörunum báðar langsum, en annað rörið er þversum ..... ég set annað handfangið niður og haldið þið ekki bara að það hafi verið orðið þolanlegur hiti í bústaðnum hálftíma síðar Blush hafði kallað þetta kuldakast yfir okkur sjálf.

Jæja við förum og fáum okkur bara morgunmat, höldum aðeins áfram að föndra og búum okkur svo til hádegismat og setjum yfir einni mynd meðan við borðum og slöppum af eftir matinn, ákveðum svo að skella okkur í pottinn og njóta þess í topp að vera í bústað.
Ég fer og moka okkur leið frá húsi að potti og svo hendum við okkur í sturtu og út í pott og ohhh hvað hann var í fullkomlega réttu hitastigi og við sitjum þar og spjöllum eins og okkur einum er lagið alveg í að verða klukkutíma, skellum okkur svo í sturtur og höldum enn áfram að jólakortaföndrast.
Um sex fer ég að gera allt tilbúið fyrir kvöldmatinn og set kjúklinginn inn í ofninn rétt rúmlega sex og við leggjumst í sófann og ætlum að horfa á eina mynd enn (enda fátt yndislegra en rómantískar myndir í bústaðnum) og stuttu seinna er eins og það sé settur dimmer á ljósin í stofunni og eldhúsinu, við lítum á hvor aðra og sjáum stór spurningamerki framan í hvor annarri og nokkrum mínútum síðar sáum við ekkert.   Rafmagnið farið af sveitinni.

Við kveikjum á þeim kertum sem þarna eru og leggjum á ráðin, hringum í bilanavaktina og þar er bara símsvari (sem by the way enginn er farinn að hringja í mig þrátt fyrir skilaboð) og við reynum að fá fjölskylduna til að finna eitthvað á textavarpinu eða mbl.is hvort viðgerð stæði yfir því við erum svoddan kettlingar að við gátum eiginlega ekki hugsað okkur að vera þarna í kolniðamyrkri.
Engar upplýsingar var að fá og við fórum að sjá í næstu bústöðum fólk snúa bílunum sínum þannig að háu ljósin náðu inn og svo hurfu bílarnir hver af öðrum svo við ákváðum að gera slíkt hið sama.
Þrif hafa aldrei verið svona léleg áður hjá okkur á bústað (og vona ég að næstu gestir muni fyrirgefa mér) og við pökkuðum okkur saman á methraða og þegar við vorum búnar að pakka í bílinn þá kom blindbylur svo við bara vorum þakklátar fyrir að vera lagðar af stað heim.

Niðurstaðan var að við stoppuðum í 24 tíma í bústaðnum, fyrstu 17 tímana án hita, síðasta klukkutímann án rafmagns svo þetta voru 6 tímar af sælu Tounge

Takk Jóna mín fyrir góða "helgi"  sé þig í lærinu í kvöld, þ.e.  ef rafmagnið fer ekki af fleiri stöðum í rvk vegna náværu okkar eins og í gærkvöldi Grin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

eheheheheheheh þú hefur sumsé verið í nágrenni við mig?

Áttuð þið engin kerti?

knús á þig sæta

Hrönn Sigurðardóttir, 28.10.2007 kl. 21:25

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta hefur verið mjög sérstök helgi vægast sagt.  En í minningunni verður hún örugglega frábær. 

Ásdís Sigurðardóttir, 29.10.2007 kl. 12:35

3 Smámynd: Rebbý

Kertin voru ekki að flækjast fyrir okkur nei, en þetta var bara ævintýri sem við munum rifja upp í hvert sinn sem við tölum um jólakortaföndur

Rebbý, 30.10.2007 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband