... var að rifja upp síðustu útileguna mína nýverið þar sem næsta er að renna upp, en síðasta útilega var reyndar síðasta sumar.
Bauð vinkonu minni að deila með mér tjaldi í útilegu þar sem ég vissi að ég ætti 4ra manna tjald inni í geymslu. Hún þáði það þessi elska og við fórum að taka okkur til fyrir Þórsmörk síðustu Jónsmessuhelgi.
Ég æddi niður í bæ og keypti queen size vindsæng inn í tjaldið svo við svæfum vel, keypti svo pumpu til að geta pumpað lofti í hana og svo var ætt af stað í geymsluna að finna tjaldið svona rétt meðan verið var að hlaða hinu inn í jeppann.
Nema hvað .. inni í geymslu er voðalega mikið af dóti, klósettpappír frá íþróttafélaginu, dúkkurúmið og -húsið sem ég lék mér með fyrir 30 árum, gömul hillusamstæða og já, allt bara nema 4ra manna tjaldið. Ákvað þá í fússi að fyrrverandi hefði tekið það með veiðidótinu sínu nokkru áður og kom fram blótandi honum í sand og ösku með litla 2ja manna kúlutjaldið sem ég hafði átt fyrir ansi mörgum árum síðan.
Upp í Þórsmörk er haldið og voða hamingja í bílnum þar sem við þrjú sem vorum að fara saman höfðum aldeilis átt margar gamlar minningar þaðan frá árum áður. Rifjuðum upp gamla skandala og við stelpurnar byrjuðum að fá okkur bjór (þetta voru sko Gunnsó og Limma).
Þegar upp í Þórsmörk var komið var fundinn fínn staður til að tjalda á, allt borið út úr bílnum og svo byrjað að tjalda. Merkilegt nokk þá var hvergi rifu að finna á gamla tjaldgarminum (sem var minnsta tjaldið á svæðinu svo það sé á hreinu) og við fáum góðfúslegt leyfi til að geyma föt og mat inni í tjaldi hjá Gunnsó sem var einn í sínu tjaldi.
Svo kom að því að byrja að pumpa í nýju dýnuna .... settist í stellingu og byrjaði með fótapumpuna mína að pumpa - pump- pump- pump - en ekkert er að sjá í dýnunni svo við förum að kanna málið og sjáum þá fljótt að þessi pumpa á bara ekkert við þessa dýnu því loftið fór allt meðfram.
Þá voru góð ráð dýr og Rebbý send af stað, aðeins í bjór, að blikka strákana á jeppunum. Vissulega og voru þeir allir voðalega áhugasamir um að blása lofti í dýnuna og hjálpuðu mér meira að segja með hana upp að tjaldi ..... þegar þangað kom þá fóru þeir hinsvegar að hlægja og gátu engan vegin séð að dýnan myndi passa inn í þetta litla gráa grey mitt.
En ég skellti mér niður á hné með dýnuna, vafði hana eins mikið saman og ég gat og þurfti reyndar líka aðeins að tappa af henni en náði að vöðla henni inn í tjaldið þrátt fyrir hlátrasköll frá áhorfendum. Við komumst hinsvegar að því að þegar inn var komið þá var engin leið að loka tjaldinu, en er það ekki bara aukaatriði þegar maður er í góðra vina hópi ......
ps fyrsta sem ég sá þegar heim kom á ný var 4ra manna tjaldið út í enda á geymslunni ... hafði keypt nýjan poka utanum það sumarið áður en gleymt því svo .....
Athugasemdir
Þú ert bara snillingur og ekkert annað, eins og ég hef alltaf sagt
Jóna (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.