... mikið agalega getur verið erfitt að heilla fólk sem er ekki á sömu bylgjulengd húmorslega séð.
Hitti þennan myndarlega kana á balli í byrjun árs og spjallaði aðeins við hann. Vill svo til að ég var aðeins í glasi svo ég mundi nú ekki eftir allri spennunni sem ég sýndi víst í hans garð þegar ég fór að rabba við hann tveimur dögum síðar á netinu (já já enn eitt netspjallið) og vildi þar að leiðandi ekki gefa honum upp símanúmerið mitt strax né drífa mig niður í bæ að hitta hann. Eitthvað kólnaði þá í gaurnum og fór svo að lokum að við hættum að spjalla.
Nú 3 mánuðum síðar hitti ég hann aftur á balli og ætlaði að rabba við hann, en komst bara ekki að honum fyrir öðrum áhugasömum stúlkum/konum svo ég rétt kinkaði kolli og hélt svo áfram mína leið.
Helgina á eftir sá ég hann aftur og þótti bara mikið til koma að sjá hann svona 2 helgar í röð og náði í þetta skiptið að tala við hann. Ég náttúrulega byrjaði á að skamma hann fyrir að hafa hent mér út af msn hjá sér og fékk þá að vita að við höfðum verið á sömu böllunum aðra hverja helgi eða svo alla þessa 3 mánuði, en ég bara verið svona dónaleg að vilja ekki heilsa ... úbbss
Það vill svo til að í "gamla" daga þá var ég voðalega mannglögg manneskja og kannski um of því ég mundi eftir öllum sem höfðu staðið nálægt mér, en eftir veikindi þar sem heilinn á mér var í aðalhlutverki þá bara get ég ekki munað neitt stundinni lengur og hafa margir þurft að kynna sig fyrir mér síðustu árin.
Nema hvað þá reyni ég að útskýra þetta fyrir honum, baðst afsökunar á dónaskapnum í mér og við skiptumst aftur á msn adressum (hvað skal kalla þetta á góðri íslensku) og byrjum aftur að spjalla saman í vikunni.
Aftur tókst mér að klúðra þessum málum en í þetta skiptið var ég svo vitlaus að spyrja hvað hann starfaði því ég bara gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvort við höfðum eitthvað rætt það. Hann fer flóknustu leið í svarið og lýsir starfinu sínu frekar en bara segja mér hvað hann gerir og svona hljóðaði lýsingin "I work around famous and not so famous people that smell of Champagne and are holding beer money" veit ekki með ykkur en fyrir mér hljómaði þetta eins og starfsmaður á stripbúllu (hvar annarsstaðar er fólk með kampavín á hverjum degi) og með því að spyrja að því þá móðgaðist hann svo svakalega að hann þakkaði mér fyrir kynnin, bað mig vel að lifa og vonaðist til að sjá mig ekki meir ég reyndi að klóra í bakkann og segja honum að það væru nú sem betur fer ekki allar konur jafn bilaðar og ég svo við gætum nú hlegið að þessu næstu mánuðina meðan ég næði að heilla hann og fá hann yfir á mitt band, en eina sem ég fékk þar til baka var ....... ÓLÍKLEGT ....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.