Færsluflokkur: Bloggar
Ohh nú er ég búin að koma mér fyrir í sófanum með gos og eftirrétt í hönd eftir að hafa bara farið út að borða með stjúpunni minni eftir vinnu. Í kvöld á nefnilega bara að vera letilíf svo ég bíð bara eftir að fallega fólkið komi á skjáinn (top modelið og Herra Ísland) svo ég passi betur inn í umhverfið mitt
Mátti í dag taka endalega af sárinu í lófanum og sé reyndar að ég þarf aldeilis að ná að mýkja húðina aftur, ferlega ljótur lófi sem blasti við mér, en þetta jafnar sig vonandi útlitslega séð enn betur á næstu dögum.
Fékk reyndar hurð skellt í hnéð á mér í dag, ekki að það hafi ekki verið nægilega fjólublátt og svart fyrir svo óhappaaldan virðist ekki vera yfirstaðin, núna er komin stór kúla á það að auki og mín var haltrandi síðustu mínúturnar í vinnunni.
Vona að þið verðið jafn dugleg að slappa af í kvöld og ég
Bloggar | 21.11.2007 | 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
OH er það ekki bara dæmigerðast að skreppa í þrif gallanum með sveittan kollinn út í búð og hitta þar einstaklinga sem ekki eiga að sjá mann illa tilhafða?
Asnaðist í IKEA aðeins í joggingbuxunum, flíspeysunni og með hárið út í allar áttir til að versla mottur, tappa undir húsgögnin og svona aðeins að skoða borðstofuhúsgögn.
Ég veit að maður hittir alltaf einhvern í þessari verslun og ég svosem heilsaði upp á nokkra kunningja og gat útskýrt fyrir þeim útganginn á mér en þegar ég var rétt komin inn í húsið þá sá ég Jonna beib og við tókum fram úr hvor öðru aftur og aftur svo hann sá aftur og aftur hvað ég var ekki fín
Fyrir ykkur sem eruð nýbúin að kynnast mér þá er Jonni fyrsti strákurinn sem ég fór á stefnumót með eftir skilnaðinn. Ég nefnilega gerðist óheyrilega djörf eitt miðvikudagskvöld að vori 2006 og skrapp í heimsókn til spjallfélaga af netinu þrátt fyrir að hafa bara verið skilin í 3-4 mánuði.
Hann sýndi mér íbúðina sína og áhuga sinn á að safna antik og það verður að viðurkennast að honum hafði tekist nokkuð vel til með að blanda saman antik og nýrri húsgögnum.
En þar sem það var svona stutt síðan ég hafði skilið þá var smá stress í minni, fannst einhvernvegin eins og ég væri að gera eitthvað sem ekki mætti þrátt fyrir að vita að mínu hjónabandi væri alveg lokið enda hafði minn fyrrverandi verið í sambúð téða 3-4 mánuði.
Við sátum svo og spjölluðum eitthvað fram eftir kvöldi en þegar ég ætlaði að fara að klæða mig aftur í jakkann og koma mér heim í svefn þá tekur þessi elska í höndina á mér og bíður mér í dans bara svona nett inni í borðstofunni hjá sér. Ferlega rómantískur og sætur.
Nema hvað að hann kyssir mig í dansinum og ég hefði sennilega ekki getað brugðist verr við þar sem ég fraus algjörlega og sagðist þurfa að rjúka og eiginlega bara rauk á dyr.
Strák greyið ákvað náttúrulega að ég væri snarbiluð dama og hefði bara verið að leika mér að því að fara illa með hann, sem hefði ekki getað verið fjær lagi.
Allavega þá gekk ekkert eftir þetta og þrátt fyrir að hafa hitt hann af og til síðan þá höfum við ekki talast við enda hann í sambandi með einhverri konu sem hefur tekið kossunum hans betur
Hann er samt ennþá voðalega sætur strákur og þess vegna á maður að líta voðalega vel út þegar hann er nálægur svo hann sjái hvað hann missti af miklum kvenkosti hehehe
Bloggar | 20.11.2007 | 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það var aldeilis spennó stefnumót sem ég átti í morgun og var ég búin að bíða eftir því alveg í rúma viku. Nú var komið að því að hitta hjúkrunarfólk á endurkomudeildinni hjá Borgó.
Saumarnir voru semsagt teknir í dag og þrátt fyrir að hafa getað horft á allt helgina sem þetta kom fyrir þá gat ég ekki hugsað mér að fylgjast með þegar þeir voru teknir.
Eftir þetta er ég með enn meiri náladofa í hendinni, finn fyrir dofa efst í lófanum, er með sára stingi rétt fyrir neðan vísifingur þegar ég rétti út höndina og ætla að vinna eitthvað eða leggja eitthvað frá mér og hef skrítna kúlu á litla putta, en þetta er víst bara til að minna mig á hvað sljóvgun heilans að völdum alkóhóls getur gert manni
Að öðru í dag er að nefna að pólsku elskurnar komu og kláruðu að setja listana en það gekk ekkert sérlega vel til að byrja með því þeir eru svo miklu vandvirkari en litli frændi svo þeir vildu betri sög svo þetta liti allt sem best út. Við skruppum þess vegna bara í bíltúr og keyptum meiri verkfæri.
Það verður einnig að segjast að þrátt fyrir að vera letidýr oft á tíðum þá var ekkert smá erfitt að sitja heima hjá múttu bara með gosglas í hendi að fylgjast með dagskrá sjónvarpsins meðan þeir voru á fullu, en í hvert skipti sem ég reyndi að koma og rétta fram hjálparhönd (þá vinstri) þá fussuðu þeir og bentu mér á að setjast, þeir væru að vinna.
En núna er stefnan á morgun eftir vinnu að fara til múttu og þrífa allt, hengja upp myndir og ganga endanlega frá og svo síðar í vikunni fara og kaupa borðstofuborð og stóla og þá er bara allt tilbúið fyrir jólin hjá gömlunni.
Held að ég láti þetta gott heita í bili ...
ps Gaui, ef þú ert að lesa enn .... takk fyrir kveðjuna, sjaldan sem bætist í gestabókina
Bloggar | 19.11.2007 | 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jæja þetta er aldeilis búin að vera helgi þar sem nóg hefur verið að gera.
Eftir vinnu á föstudaginn þá fór ég til múttu að skipta mér af þegar bræður mínir tóku sig til og báru stærstu húsgögnin hennar fram á gang þar sem komið var að því að parketleggja stofuna og eldhúsið. Ég átti auðvitað að hjálpa til en sökum þess að vera einhent þá taldist ég löglega afsökuð
Eftir þetta fórum við Gunnsó félagi til Vilmu og sátum með henni og vinkonu hennar að spila og drekka rauðvín (nema hvað ég var bara í gosinu, enda aðeins pása á drykkjunni) og sátum svo og hlógum eins og vitleysingar þar sem við vorum í Partýleiknum og þurftum að leysa hin ýmsu verkefni s.s. leika Andrés Önd og teikna titil myndarinnar "Silence of the lambs"
Brilliant spil sem ég hlakka til að prufa aftur. Vilma blikk blikk
Þegar heim kom um nóttina tók á móti mér enn eitt partýið í húsinu sem reyndar endaði með lögregluheimsókn því slagsmál voru búin að brjótast út eins og heyra mátti milli allra hæða.
Um 2 tókst mér loksins að sofna svo ég var ekkert rosalega brött um 8 á laugardagsmorgun þegar ég fór á fætur til að fara aftur til múttu.
Við byrjuðum á að taka niður gardínurnar og henda í þvott og klára að flytja smádót inn í herbergi svo strákarnir gætu aðhafst. Æddum út í búð og keyptum meiri málningu og eitthvað af smá hlutum sem þeim vantaði til að geta unnið verkið sitt og skildum þá svo eftir við að mála og leggja gólfið.
Við vorum á flakki milli húsgagnaverslana að skoða borðstofuhúsgögn þar sem það á að kaupa slíkt í jólagjöf handa múttunni, en það gekk ekkert sérstaklega vel.
Einu skiptin sem við þorðum inn var þegar við vildum gefa strákunum eitthvað að snæða og svo þegar okkur fór að finnast þetta vera orðið dágóður tími sem hefði farið í þetta fórum við að reyna að vera duglegar að hjálpa þeim pólsku, en tíminn fór þá bara meira í að rembast við að tjá sig og gera sig skiljanlega (bæði við og þeir).
Um miðnætti var farið að vera smá stress í gangi við að klára því þeir töldu öruggt mál að þeir mættu ekki vera úti að saga lengur (og við kellurnar vildum líka að þessu færi að ljúka) en þrátt fyrir að hafa hætt að saga kl 00:30 þá voru þeir ekki búnir að öllu og fóru heim rúmlega 1 en svo verður mæting hjá gömlunni á morgun við að klára þar sem allir gólflistarnir eru eftir í eldhúsinu.
Klukkan 9 í morgun fór ég á fætur og rembdist við að gera mig fína þar sem það var loksins komið að því að uppljóstra hvaða nafn litli "frændi" ætti að bera það sem eftir væri og svo var skroppið í þessa fínu veislu með voðalega flottum smáréttum og einstaklega góðri skírnartertu.
Ég stakk reyndar fljótlega af til að fara heim til múttu og bera húsgögnin inn í stofu aftur og þrátt fyrir að hafa ekki verið á fullu í gær við að leggja gólfið þá duttum við kellurnar út yfir sjónvarpinu og ætlum sko að nota alla næstu viku við að klára að koma íbúðinni í horf aftur því það er engin smá vinna að þrífa allt, setja upp myndir og setja inn í stofuskápana aftur.
Á morgun er komið að því að taka saumana úr lófanum og það var eins gott að það hefur sést í sárin þar sem bræðrunum þykir merkilegt að ég slasaði mig daginn fyrir áætlaðan upphafsdag breytinganna hjá mömmu okkar og saumarnir verða teknir daginn eftir að þeim átti að ljúka.
Þetta er bara búið að tefja málið smá og reyndar bara flott að þeir hjálpuðu til og elstu strákarnir þeirra þá er hægt að kalla þetta fjölskylduátak með smá pólskri hjálp
Bloggar | 18.11.2007 | 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jæja enn á einni hendi reyni ég að setja inn smá fréttir af mér ...
Það hafði ekkert með höndina á mér að gera að ég fór ekki í vinnuna í morgun heldur var ég búin að bóka mig á námskeið út í bæ og hugsaði mér gott til glóðarinnar að vera með starfsmannastjórann með mér sem einkaritara, en það klikkaði þar sem hún komst ekki á réttum tíma frá veiku barni svo ég þurfti að kreista saman þumal, vísifingur og löngutöng með þvílíkum öskrum innra með mér svo ég truflaði ekki hina áhugasömu nemendurna.
Rétt fyrir hádegi var ég reyndar að því komin að öskra þarna inni en meira bara af leiðindum og til að kanna hversu margir myndu vakna til lífsins á ný.
Veit að það er erfitt að gera upplýsingar um tölvukerfi spennandi, en andsk... hafi það ef maðurinn var ekki að því kominn að drepa okkur úr leiðindum.
Skrapp svo í göngutúr í hádeginu og fékk mér snæðing en fattaði ekki alveg að ég ætti bágt með að skera matinn svo ég var voðalega lengi að borða en fékk mér svo góðan eftirrétt með mér inn á ný og settist uppspennt af sælgætisáti tilbúin í meiri lærdóm.
Klukkan 2 var höndin farin að kvarta vel, gott ef tvöfalda hnéð var ekki farið að æsa sig, heilinn að verða að mauki og bakið að bilast því 5 tíma seta á eldhússtól er ekki toppurinn á tilverunni.
Á morgun verður verkefnavinna og það verður gefið í svo maður komist snemma heim og byggja sig vel upp fyrir skotin sem koma frá vinnufélögunum á miðvikudag verður nóg um þau ....
Bloggar | 12.11.2007 | 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jæja núna er konan á fullu að vélrita hérna smá pistil með vinstri hendi og verð að segja að þeirri hægri klæjar alveg í puttana, ekki bara til að vera með í pikkinu heldur fá að hreyfa sig.
Skrapp á föstudagskvöldið til góðra vinkvenna og fékk mér aðeins í glas en þegar það kom að því að fara út í bílinn sem átti að flytja okkur í bæinn þá stökk stór steinn í veg fyrir mig hlýtur að vera því ég féll fram fyrir mig og flaskan sem átti að vera félagsskapur minn á leiðinni brotnaði og skildi eftir sig 2 myndarlega skurði í lófanum.
Vinkonurnar hentust með mig inn á bað og sáu skurðina mun betur en ég svo þær hentu þvottastykki um höndina og settu mig úr á miðri leið, eða sko skildu mig eftir á slysó og þrátt fyrir að stuðið væri ekki mikið þar þá "entist" ég lengst í "djamminu" því ég kom ekki heim fyrr en rúmlega sex og þá 9 glæsilegum sporum ríkari auk þess sem ég ein fékk innsýnina í líf læknanemans á bráðavaktinni en hún viðurkenndi að þarna á fyrstu vaktinni sinni væri hún hvorki búin að hitta á McDreamy né McSteemy svo líf einhleypa læknanemans var ekki jafn spennó að því leitinu og þeirra á stöð2 en starfið er víst rosalega spennandi svo ég óska henni góðs gengis í restinni af náminu þrátt fyrir að ég stefni ekki að því að sjá hana að verki meir.
Simmý, það var leitt að aðkoman heima hjá þér eftir ballið var svona blóðug en þú kannski hleypir mér samt í heimsókn aftur síðar .... takk fyrir aðstoðina, boðið um að sitja með mér á slysó og ekki síst fyrir webcam brandarann
Bloggar | 11.11.2007 | 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Það er eitt sem ég hef tekið vel eftir síðan ég skildi og það er hvað karlmenn eru fullir sjálfstraust hvort sem það er verðskuldað eða einfaldlega þeir búnir að selja sér þá hugmynd að þeir séu "Gods gift to women"
Þetta virðist ekki vera að hrjá vinkonur mínar, sérstaklega ekki þær einhleypu, hvað þá gömlu góðu mig.
Einhvernvegin náum við að draga það versta upp og brjóta okkur niður sjálfar, er þetta kvenfólki meðfætt?
Persónulega vil ég ekki vita af gráa hárinu mínu svo ég fer reglulega í litun og hef því ekki séð mitt fyrsta grá hár ennþá
Sætti mig alveg við hrukkurnar mínar enda sé ég þær bara sem hláturhrukkur ennþá og það segir mér bara að ég sé búin að eiga yndislega tíma og reyndar búin að læra að þetta er bara þroskamerki (trúi því allavega ennþá)
Líkaminn hefur alltaf verið í ólagi, get að hluta til kennt sjálfri mér um og að hluta til sjúkdómi sem hefur reyndar kostað mig meira en bara aukakílóin.
Tel mig hafa hinn ágætasta persónuleika og skiptir það ekki mestu?
Verð að segja að þegar ég horfi á þáttinn "how to look good naked" þá sé ég alveg að málið er að vera sáttur við sjálfa/-n sig og þá kemur hitt að sjálfu sér. Tekst þó ekki að selja mér það sjálf.
Kynþokki hefur ekkert með fullkominn vöxt að gera svo því erum við ekki sáttari við sjálfa okkur.
Stelpur verum sáttar þó við séum misjafnlega "gallaðar"
Óska eftir "sjálfsálit 101" námskeiði handa mér og mínum
Bloggar | 7.11.2007 | 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
jæja þá er aldeilis að jólin mættu koma heima hjá mér ....
Tók mig til áðan og þreif og skúraði og nú er íbúðin tilbúin fyrir jólin.
Verst að þetta helst ekki svona næstu 7 vikurnar en það er svosem allt í lagi því þetta var fínasta líkamsrækt
Eftir þessi ósköp kveikti ég lömpum og ljósum inn í skápum og bjó til voðalega rómó stemmingu, eldaði mér kvöldmat og setti svo spólu í tækið og verð reyndar að játa upp á mig smá óvæntann lúr en vaknaði heldur betur þegar pólverjarnir á næstu hæð fóru að hoppa eftir hinum greinilega vinsæla smelli sem var í græjunum þeirra.
Það verður semsagt ekki rómantík fyrir einn í kvöld heldur vakað vegna hávaða frá nágrönnunum. Dobra eða hitt þó ...
Bloggar | 2.11.2007 | 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fór í gærkvöldi að sjá Andrea Bocelli
Var svo heppin að eiga múttu sem þorir ekki að keyra nema sína vanalegu leið frá heimili til vinnu svo hún bauð mér að koma með sér á tónleikana sem bílstjóri.
Fórum snemma af stað svo við værum örugglega mættar á staðin á góðum tíma og við náðum því. Vorum komnar í sætin okkar rétt fyrir 8 og biðum svo spenntar eftir að tónleikarnir byrjuðu.
20mín síðar var kallað í hátalarakerfið að tónleikar myndu byrja eftir 15.mínútur og svo töldu þeir niður þangað til ljósin voru deyfð kl 20:30
Tónleikarnir byrjuðu á að þessi fínasta sinfóníuhljómsveit spilaði en svo kom hann á svið þessi myndarlegi snillingur.
Hann hafði með sér barritón og sópran á sviðinu í nokkrum lögum, en mér fannst hann bestur þegar hann var einn að syngja.
Verð reyndar líka að segja að mér fannst hann mun betri eftir hlé þegar ég fór að kannast við lögin því ég kýs heldur þessa poppuðu klassík og þegar kom að uppklappinu þá byrjaði gæsahúðin að koma því þá söng hann "Prayer" og endaði með "Time to say goodbye"
Mamma mín, hvenær sem þig vantar bílstjóra á svona tónleika, bara hringdu
Bloggar | 1.11.2007 | 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Skrapp í gær aðeins í Byko og Húsasmiðjuna með múttu gömlu og viti menn, í Húsasmiðjunni var allt að fyllast af jólaljósum og komið eitthvað af skrauti og jólakúlum inn í Blómaval.
Þegar ég var hluti af hjónum þá var ég ekki mikið jólabarn, kannski þar sem hann sá alveg um þetta fyrir okkur bæði, en það hefur aldeilis breyst núna og ég átti bara bágt með að kaupa ekki eitt af öllu sem komið var til sölu.
Verð líka að viðurkenna að það er hellingur sem mig vantar svo það verður "löglegt" að detta í bruðlgírinn núna í nóvember og byrjun desember því ég verð jú að gera litla heimilið mitt svolítið sætt svona fyrir mesta skammdegið.
Ætla að leyfa haustinu að lifa aðeins lengur hérna heima, en fyrir miðjan nóvember held ég að fyrsta jólaskrautið verði komið upp
Bloggar | 30.10.2007 | 21:33 (breytt kl. 21:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)